146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2016.

309. mál
[19:01]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns leiðrétta orð forseta. Sá sem hér stendur er varaformaður þingmannanefndar EFTA og EES þetta árið. Rétt skal vera rétt.

Ég vil í þessari ræðu minni mæla fyrir skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES fyrir árið 2016.

Skýrslan liggur hér fyrir á 14 blaðsíðum þar sem gerð er grein fyrir fundum þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EFTA og EES á almanaksárinu 2016 og hefst nú lesturinn.

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.

Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var annars vegar farið yfir þann mikla fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíður upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægi þess að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/EFTA-ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans.

Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 27 og taka til 38 ríkja. EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við níu ríki, þar á meðal Indland, Indónesíu, Víetnam og Malasíu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA heimsótti í þessu skyni Filippseyjar og Víetnam á árinu og átti viðræður við þarlend stjórnvöld, þingnefndir, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál.

Væntanleg útganga Bretlands úr ESB, Brexit, kom ítrekað til umfjöllunar á árinu, bæði fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi 23. júní 2016. Framtíðarskipan viðskipta við Bretland eftir útgöngu úr ESB, og þar með EES, er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ríki EFTA en Bretland er stærsti viðskiptaaðili bæði Íslands og Noregs innan EES. EFTA-ríkin fylgjast grannt með þróun mála og því hvernig breska stjórnin mun leggja upp hugmyndir um framtíðartengsl við ESB þegar 50. gr. Lissabon-sáttmálans um útgöngu verður virkjuð.

Þá var ítrekað fjallað um yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna við ESB (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP) sem hófust í júlí 2013. Viðræður snúa að markaðsaðgangi og varða lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup. Náist samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu staðla eða sameiginlega staðla mun það hafa áhrif á regluverk innri markaðarins og þar með EES/EFTA-ríkin. Þrír möguleikar blasa við EFTA ef TTIP verður að veruleika, í fyrsta lagi að fá eins konar aukaaðild að TTIP en ekki liggur fyrir hvort slíkt verður í boði, í öðru lagi að EFTA geri eigin fríverslunarsamning við Bandaríkin og loks óbreytt ástand. Engin samræmd stefna liggur fyrir hjá EFTA-ríkjunum gagnvart TTIP en saman fylgjast þau grannt með gangi mála með reglubundnu samráði við viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna og framkvæmdastjórn ESB. Þá er enn óljóst hvaða stefnu ný stjórn Bandaríkjanna mun marka sér varðandi TTIP-viðræðurnar.

Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna viðskiptastefnu ESB og fríverslunarsamningagerð sambandsins, stefnu til eflingar innri markaða ESB, þvingunaraðgerðir ESB gagnvart Rússlandi og gagnaðgerðir Rússa, fólksflutninga innan ESB og deilihagkerfið.

Virðulegi forseti. Í skýrslu þingmannanefndar EFTA og EES fyrir árið 2016 er gerð grein fyrir einstökum fundum. Ég tel ekki rétt að tíunda það en vísa að öðru leyti í þskj. 421, þ.e. þá skýrslu sem ég hef núna lesið úr. Hef ég þar með lokið máli mínu.