146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

Evrópuráðsþingið 2016.

308. mál
[19:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins er ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að kynna fyrir þingi og þjóð skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins frá árinu í fyrra ásamt því að fara nokkrum orðum um dvöl okkar á Evrópuráðsþinginu hingað til, hinnar nýju Íslandsdeildar sem tók við störfum í mars á þessu ári. Við vorum reyndar kjörin í febrúar en fórum á okkar fyrsta fund í mars og mun ég ræða það aðeins hérna á eftir.

Ég ætla að byrja á að ræða skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2016. Í henni stendur, með leyfi forseta:

„Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2016 bar hæst flóttamannavandann í Evrópu, stöðu mannréttinda og lýðræðis í Tyrklandi og baráttuna við hryðjuverk. Neyðarástandið í Úkraínu var einnig ofarlega á dagskrá, ekki síst hlutdeild Rússlands í átökunum.

Evrópuráðsþingið ályktaði um flóttamannavandann í álfunni á öllum þingfundum ársins 2016. Á janúarfundi þingsins voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að efla leitar- og björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafinu og auka stuðning sinn við viðleitni Grikklands, Ítalíu, Serbíu og Makedóníu til að taka á vandanum. Jafnframt var kallað eftir auknum rannsóknum á og aðgerðum til að uppræta starfsemi þeirra sem smygla fólki á milli landa og sækja þá til saka. Á aprílfundi sínum gerði þingið alvarlegar athugasemdir við flóttamannasamning Evrópusambandsins og Tyrklands frá 18. mars 2016. Dregið var í efa að samningurinn sjálfur og framkvæmd hans stæðist alþjóðleg mannréttindalög. Gríska hæliskerfið hefði ekki getu til að afgreiða hælisumsóknir á viðunandi máta, varðhald hælisleitenda á grísku eyjunum samræmdist að öllum líkindum ekki mannréttindasáttmála Evrópu og Tyrkland veitti hælisleitendum ekki þá vernd sem alþjóðalög krefðust. Stjórnvöld í Grikklandi og Tyrklandi voru beðin um að tryggja að alþjóðlegir staðlar væru að fullu virtir við móttöku og afgreiðslu umsókna flótta- og farandverkamanna. Á októberfundi sínum ályktaði þingið að hvetja aðildarríki til að efla vernd fylgdarlausra ólögráða ungmenna í Evrópu, bæði heima fyrir og með svæðisbundnu og alþjóðlegu samstarfi. Mælst var til þess að aðildarríki neituðu aldrei fylgdarlausum, ólögráða ungmennum inngöngu, í samræmi við alþjóðleg mannréttinda-, mannúðar- og flóttamannalög.

Á júnífundi þingsins var ályktað um virkni lýðræðisstofnana í Tyrklandi. Lýst var yfir vaxandi áhyggjum af stöðu tjáningar- og fjölmiðlafrelsis, réttarríkisins og mannréttinda í landinu. Tyrknesk stjórnvöld voru beðin um að afnema lög sem gera það refsivert að móðga forseta landsins, tyrknesku þjóðina, ríkið, stofnanir þess eða stefnu stjórnvalda. Undanfarin tvö ár hafa um tvö þúsund mál gegn blaðamönnum og fræðimönnum, sem eru sakaðir um að hafa móðgað forseta landsins, verið sótt fyrir tyrkneskum dómstólum. Þingið lýsti jafnframt yfir áhyggjum af þeim mikla fjölda vefsíðna sem stjórnvöld hefðu lokað sem og breytingum á lögum um skipan dómara og saksóknara sem vektu upp spurningar um sjálfstæði dómstóla landsins og afskipti framkvæmdarvaldsins af dómskerfinu. Handtökur lýðræðislega kjörinna kúrdískra borgarstjóra og uppsögn annarra vekti einnig áhyggjur sem og afleiðingar langvarandi útgöngubanns og ítrekaðra mannréttindabrota í suðausturhluta landsins í tengslum við aðgerðir stjórnvalda á svæðinu. Þingið harmaði einnig að friðarviðræðum við Kúrda hefði verið hætt sumarið 2015. Á októberfundi þingsins var staða mála í Tyrklandi eftir valdaránstilraun þar í landi 15. júlí 2016 ofarlega á dagskrá. Margir þingmenn lýstu yfir áhyggjum af því að Tyrkland væri að fjarlægjast gildi Evrópuráðsins og gagnrýndu harðlega viðbrögð tyrkneskra stjórnvalda við valdaránstilrauninni. Aðrir þingmenn sögðu viðbrögð stjórnvalda eðlileg í viðleitni til að tryggja lýðræðið og réttarríkið.

Á aprílfundi þingsins var ályktað um brýna þörf á að taka á veikleikum í öryggiskerfum Evrópuríkja og efla aðgerðir gegn hryðjuverkum. Þingið sagði hryðjuverkaárásirnar í Brussel 22. mars 2016 hafa að hluta komið til vegna veikleika í öryggiskerfum Belgíu, Evrópusambandsins og alþjóðasamfélagsins og kallaði eftir auknu samstarfi, samræmingu og upplýsingamiðlun á milli evrópskra löggæslu- og öryggisstofnana.

Líkt og síðustu ár var aðild Rússland að átökunum í Úkraínu og ástandið þar í landi ofarlega á blaði. Í apríl 2014 var landsdeild Rússlands svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu vegna aðkomu Rússlands að átökunum. Staða landsdeildar Rússlands er óbreytt og hefur hún ekki tekið þátt í störfum Evrópuráðsþingsins síðastliðin tvö ár. Á októberfundi þingsins árið 2016 fordæmdi þingið enn og aftur aðkomu Rússlands að átökunum og ólöglega innlimun landsins á Krímskaga. Aðilar að Minsk-samkomulaginu voru beðnir um að hrinda í framkvæmd öllum ákvæðum samninganna, þar á meðal um vopnahlé.

Í upphafi árs var Pedro Agramunt, þingmaður landsdeildar Spánar og flokkahóps kristilegra demókrata, kjörinn forseti Evrópuráðsþingsins til eins árs.“

Ég ætla að leyfa mér að staldra við eftir inngang skýrslu Íslandsdeildarinnar frá árinu í fyrra og ræða aðeins um þá þróun sem átt hefur sér stað frá því að þessi skýrsla var skrifuð, og þá sérstaklega í öllum þessum áhugaverðu og mjög svo mikilvægu málum sem verið hafa til umræðu og umfjöllunar á Evrópuráðsþinginu. Fyrst er talað um ástandið í Tyrklandi. Tyrkland var til umræðu á fyrsta þinginu sem ný Íslandsdeild sótti, sem var í apríl sl. Við í Íslandsdeildinni erum í raun og veru nýkomin heim af þeim fundi. Þar ákvað Evrópuráðsþingið að setja Tyrkland aftur undir aukið eftirlit, sem fylgir því að ganga í Evrópuráðið. Tyrkland hafði lokið því eftirlitsferli sem því fylgir alla jafna, og var komið í eftirfylgni sem er með minna móti eftir að fyrsta eftirlitsferlinu lýkur. En nú hefur Evrópuráðsþingið sem sagt ákveðið að setja Tyrkland aftur undir aukið eftirlit, og verður fylgst með því hvernig staðið er að vernd mannréttinda borgara þessa lands.

Það vakti hörð viðbrögð tyrknesku landsdeildarinnar sem gekk út af fundi Evrópuráðsþingsins og ekki er vitað nákvæmlega hvernig verður með áframhaldandi samstarf Tyrklands og Evrópuráðsþingsins, alla vega næstu misserin. Auðvitað var þetta gert vegna ítrekaðra og alvarlegra mannréttindabrota stjórnvalda í Tyrklandi gagnvart sínum eigin borgurum og þá sérstaklega gagnvart kennurum, dómurum, þingmönnum, blaðamönnum og ýmsum öðrum sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnvalda þar í landi. Þau hafa notfært sér svokallað neyðarástand sem tylliástæðu fyrir jafnvel ofsóknum á hendur pólitískum andstæðingum sínum.

Þar að auki hefur sú þróun orðið frá því að þessi skýrsla var skrifuð að þingmenn Rússa, þá sérstaklega utanríkisdeildar Rússa, komu á fund stjórnar Evrópuráðsþingsins í mars sl. þar sem þeir skiptust á skoðunum við þingmenn Evrópuráðsþingsins um mögulega endurkomu sína að starfinu og um úrbætur á sviði mannréttindamála þegar kemur að ástandinu í Úkraínu. En þeirri sem hér stendur þóttu þær umræður helst til teknókratískar af hálfu Rússlands og ekki endilega til þess fallnar að samskiptin á milli Evrópuráðsþingsins og Rússa myndu batna. Það er þó von þegar Rússar koma og ræða við Evrópuráðsþingið, að þeir muni mögulega á einhverjum tímapunkti ganga aftur til samstarfs við okkur.

Loks ber þess að geta að vissulega var í upphafi árs 2016 Pedro Agramunt, þingmaður landsdeildar Spánar og flokkahóps kristilegra demókrata, kjörinn forseti Evrópuráðsþingsins til eins árs. En þeir fordæmalausu atburðir áttu sér stað á því þingi sem var nú að ljúka, aprílþinginu, að þingmenn Evrópuráðsþingsins lýstu yfir vantrausti á forsetann þrátt fyrir að þingsköp þingsins heimili í raun ekki vantraust að því leytinu til að það geti tekið forsetastólinn af forseta. Þetta upphlaup og vantraustsyfirlýsingar urðu til þess að forsetinn sætti opinberri yfirheyrslu og framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins lýsti yfir vantrausti á hann og tók af honum öll völd til þess að koma fram fyrir hönd Evrópuráðsþingsins, stýra fundum fyrir þess hönd og í raun að vera talsmaður Evrópuráðsþingsins. Það er fordæmalaust í sögu Evrópuráðsþingsins, það hefur ekki gerst í 68 ára sögu þessara samtaka og átti rætur sínar að rekja til þess að forsetinn lét hafa sig út í það í boði Rússa að fara í heimsókn til Sýrlands og hitta þar Assad nokkurn Sýrlandsforseta og fara þar í skoðunarferð. Forsetinn hefur sagt sér til varnar að hann hafi farið þarna prívat og persónulega sem spænskur þingmaður en ekki sem forseti Evrópuráðsþingsins og að ekki beri að líta svo á að hann hafi gert það í opinberu embætti sem forseti Evrópuráðsþingsins. En þessi heimsókn var samt sem áður auglýst mjög víða sem heimsókn forseta Evrópuráðsþingsins til Assads með Rússum til að skoða aðstæður þar og þótti því setja mjög svartan blett á samtökin, þ.e. Evrópuráðsþingið í heild. Var forseta því ekki talið sætt í embætti lengur og nýtur ekki trausts nokkurs manns eða þá mjög fárra í Evrópuráðsþinginu til að gegna embætti, en hann þráast þó enn við að segja af sér þótt við búumst við að það gerist fyrr en seinna.

Svo ég komi aftur að skýrslunni sem ég hef frá Íslandsdeildinni í fyrra, þá eru hér kaflar um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið, almennur kafli. Svo er hér stuttur kafli um Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins sem ég ætla að leyfa mér að lesa úr fyrir þingheim áður en ég lýk máli mínu með stuttri hugleiðingu um hlutverk okkar og tilgang í Evrópuráðsþinginu. Hér er að finna kafla um Evrópuráðið almennt og Evrópuráðsþingið. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.“

Hér ræðum við um mannréttindasáttmála Evrópu, sáttmála Evrópu gegn pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð, Evrópusamningi gegn spillingu og fleiri slíka samninga.

Svo ég haldi áfram máli mínu segir hér, með leyfi forseta:

„Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu.

Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og gerðist aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.

Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 324 fulltrúar og jafn margir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.

Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.

Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:

eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,

hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og

vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.“

3. kafli fjallar um Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrstu tvo mánuði ársins 2016 voru aðalmenn Karl Garðarsson formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Unnur Brá Konráðsdóttir varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Á sama tíma voru varamenn Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Hinn 7. mars 2016 tók Valgerður Gunnarsdóttir sæti Unnar Brár Konráðsdóttur sem aðalmaður og Unnur Brá tók sæti Brynjars Níelssonar sem varamaður. Sat sú Íslandsdeild óbreytt fram að kosningum 29. október 2016.“

Í skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins má fræðast um þær fastanefndir sem aðalmenn og varamenn sátu í og frekar um starfsemi Evrópuráðsþingsins, en þar er margt áhugavert að finna og hvet ég þingmenn, sem og þjóðina alla, til að kynna sér Evrópuráðsþingið betur því að þetta er mjög mikilvægt þing og er, nota bene, ekki Evrópusambandið, svo því sé haldið til haga. Okkur finnst við ítrekað þurfa að benda fólki á það því að það virðist vera einhver ruglingur þar á. Reyndar á þessi mikilvæga, alþjóðlega stofnun sér mjög merkilega og áhugaverða sögu og varð til, rétt eins og Evrópusambandið, í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar í sameiginlegri vegferð Evrópubúa um að mynda með sér bandalag til að koma í veg fyrir aðrar eins hörmungar og seinni heimsstyrjöldin var.

Í því ljósi vil ég segja að Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið eru meðal okkar mikilvægustu samstarfsaðila þegar kemur að lýðræði, mannréttindum og vernd réttarríkisins. Sem nýkjörinn formaður íslensku sendinefndarinnar get ég ekki annað en ítrekað mikilvægi þess starfs sem þar er unnið. Við, íslenska sendinefndin, sem er kannski rétt að geta hér í lok ræðu minnar að inniheldur ekki einungis mig heldur einnig hv. þm. Vilhjálm Árnason og hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, erum nýkomin heim af þessu sögulega þingi þar sem vantrausti var lýst á forseta Evrópuráðsþingsins. Nú hefur verið ákveðið að skipa óháða nefnd til að fara yfir ásakanir gegn ákveðnum þingmönnum Evrópuráðsþingsins um spillingu, um að þiggja mútufé og fyrir að hafa áhrif á skýrslugerð og atkvæðagreiðslu þingmanna hvað varðar landið Aserbaídsjan sem og hina sögulegu ákvörðun að setja Tyrkland aftur í svokallað eftirfylgniferli.

Mín reynsla af þinginu var að það var rosalega áhugavert að kynnast þingmönnum alls staðar að úr Evrópu og í raun víðar ef við hugsum um þetta í hreinum landfræðilegum skilningi. Það var áhugavert að kynnast mörgum mismunandi sjónarhornum og einnig að finna fyrir mjög miklum samstarfsvilja allra þingmanna sem þar voru, vináttu, vinaþeli og áhuga á Íslandi og íslenskum málum er varða mannréttindi og jafnrétti og önnur mikilvæg málefni og var mikill vilji til samstarfs við okkur. Það verður að segjast eins og er að þeir þingmenn Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sem á undan komu hafa skilið eftir sig djúp spor og eru mikil fyrirmynd í því hvernig við munum sinna áfram starfi okkar fyrir Evrópuráðsþingið. Þau njóta mikillar virðingar meðal þeirra sem setið hafa þar lengur en við, fyrir að hafa verið dugleg, fagleg og málefnaleg. Kann ég þeim miklar þakkir fyrir sín góðu störf og fyrir að hafa getið sér jafn góðan orðstír og raun ber vitni. Það gerir okkur töluvert auðveldara fyrir við að mynda tengsl og vinna að málum.

Við fengum öll að halda okkar fyrstu ræður á Evrópuráðsþinginu, sem var mjög áhugaverð lífsreynsla. Þar að auki fékk hv. þm. Katrín Jakobsdóttir mál á dagskrá um akademískt frelsi, sem er mjög áhugavert og frábært frumkvæði hjá henni. Þar að auki var ég skipuð flutningsmaður á erindi um mögulega stríðsglæpi vígamannanna í íslamska ríkinu. Ég hlakka til að fylgja því eftir og hlakka til að halda áfram starfi mínu í Evrópuráðsþinginu, sem er mjög mikilvægt. Ég vona að við fáum fleiri tækifæri en eina ræðu hér að kvöldi næstum því sumardags að því er virðist, til að ræða mikilvægi þessa mikilvæga þings. En ég læt máli mínu lokið hér í bili.