146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

Evrópuráðsþingið 2016.

308. mál
[19:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa samantekt. Ég verð að segja að mér finnst leiðinlegt hve lítinn tíma við fáum til að ræða á djúpstæðan hátt um Evrópuráðið. Eins og kemur fram í samantekt almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið er hlutverk Evrópuráðsins að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér meðal annars fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.

Hér er líka rosalega góð samantekt á ályktunum og tilmælum og álitum Evrópuráðsþingsins frá árinu 2016 og mig langar að vita hvernig því sé háttað að taka þessar ályktanir og tilmæli hér inn í þingið, hvort Alþingi sé ekki réttur staður til að ræða um þessi mál og að þetta sé ekki einvörðungu sett í hendurnar á framkvæmdarvaldinu. Mér finnst mörg af þessum tilmælum og ályktunum eiga mikið erindi í þverpólitíska samvinnu hér innan húss.

Mig langar að spyrja þingmanninn um álit hennar á því hvort ekki sé þörf á því að við förum betur yfir sumar af þessum ályktunum, sem eru ekki sértækar heldur víðtækar, hér á þingi. Þetta var aðeins rætt þegar við vorum í sambærilegum umræðum um alþjóðamál, um okkar alþjóðlegu og sértæku deildir, hér á þingi síðast, að fara þyrfti í einhvers konar vinnu til að tryggja að þetta hverfi ekki. Þetta er fyrsta spurning en ég hef eina spurningu í viðbót á eftir.