146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

Evrópuráðsþingið 2016.

308. mál
[19:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir það með henni að vissulega er tilefni til að þingið taki hér til meðferðar margar af ályktunum, tilmælum og álitum Evrópuráðsþingsins sem vissulega hafa töluvert víðtækari skírskotun en að þau haldist úti í Strassborg þar sem þau eru oftast formúleruð.

Það má finna mörg dæmi um þetta. Það er mjög sjaldgæft að eitthvað sem gerist í Evrópuráðsþinginu eitt og sér rati hingað í þingsal og er það miður. Þó eru þess fordæmi. Ber þar kannski helst að nefna víðfræga skýrslu þingmannsins Dicks Martys um fangaflug sem Evrópuþjóðir tóku þátt í fyrir tilstilli Bandaríkjamanna, og fóru inn í leynifangelsi víða í álfunni þar sem svokallaðir stríðsfangar Bandaríkjanna voru pyndaðir og hlutu illa meðferð. Þessi skýrsla hafði slík áhrif að hún komst inn í þennan sal og hafði líka þau áhrif að breyta löggjöf, bæði hér og víða annars staðar í álfunni, þegar kom að því að tryggja hvers konar farþegar væru um borð í þeim flugvélum sem lenda á yfirráðasvæði aðildarríkjanna og tryggja betur en áður mannréttindi þeirra sem hafa verið frelsissviptir af Bandaríkjunum. Það eru örfá dæmi um að ályktanir, tilmæli og álit Evrópuþingsins rati beinustu leið inn í þingsal og verði að umræðuefni, en þá eru það líka venjulega mjög mikilvæg mál.

Vissulega eru hér ýmis mál sem við gætum tekið til umræðu. Það er mikilvægt að þetta starf gagnist fleirum en þeirri sem hér stendur, það sem þar fer fram. En ég mun að sjálfsögðu eftir fremsta megni reyna að koma þeim lærdómi sem ég dreg af ferðum mínum þangað hingað inn í þingið með ýmsum leiðum.