146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

Alþjóðaþingmannasambandið 2016.

358. mál
[19:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég geri nú grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2016.

Eins og háttar til um flesta formenn alþjóðanefnda þingsins hef ég ekki setið lengi í því embætti þannig að hér erum við að flytja skýrslur um starfsemi sem við tókum ekki þátt í, en þess ber að geta að á árinu 2016 voru aðalmenn í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem var formaður, frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Ásmundur Einar Daðason varaformaður, frá þingflokki Framsóknarflokks og Birgitta Jónsdóttir frá þingflokki Pírata. Varamenn voru Helgi Hrafn Gunnarsson frá Pírötum, Sigrún Magnúsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Arna Gerður Bang var ritari Íslandsdeildarinnar.

Í skýrslunni er bæði fjallað almennt um Alþjóðaþingmannasambandið og um þá starfsemi sem innt var af hendi af hálfu Íslandsdeildarinnar. Varðandi Alþjóðaþingmannasambandið, IPU, er þess að geta að þar eiga aðild 171 þjóðþing, en aukaaðild að sambandinu eiga 11 svæðisbundin þingmannasamtök.

Eins og segir í skýrslunni er markmið IPU að vinna að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum og grundvallarreglur lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða.

Alþjóðaþingmannasambandið heldur að jafnaði tvö þing á ári, að vori í einu af aðildarríkjum sambandsins og að hausti í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna og gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Af þeim fjölmörgu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2016 eru nokkur dregin sérstaklega fram í skýrslu Íslandsdeildarinnar og gefa ágæta mynd af því hversu fjölbreytt viðfangsefni Alþjóðaþingmannasambandsins eru. Í skýrslunni er fyrst nefnd umfjöllun um stríðið í Sýrlandi og alvarlegt ástand mannúðarmála þar, sérstaklega í Aleppó. Það var rætt um hlutverk þjóðþinga alþjóðasamfélagsins og svæðisbundinna stofnana við að veita nauðsynlega vernd og aðkallandi stuðning við flóttamenn. Það var einnig rætt á víðari grunni um málefni innflytjenda og flóttamanna. Einnig var fjallað um og ályktað á vettvangi IPU um hryðjuverkastarfsemi og baráttu gegn henni.

Loks má nefna að í brennidepli voru umræður um hvernig stuðla megi að auknu alþjóðlegu samstarfi um markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með sérstaka áherslu á konur sem drifkraft þróunar.

Jafnréttismál og staða kvenna var frekar til umræðu á vettvangi IPU og ályktun samþykkt um frelsi kvenna til fullrar þátttöku í stjórnmálum og aukna samvinnu karla og kvenna til að ná því markmiði. En auðvitað er rétt að hafa í huga að staða mála af þessu tagi er afar misjöfn meðal þeirra 171 ríkis sem aðild eiga að samtökunum.

Í skýrslunni er líka vikið að því að á árinu hafi verið fjallað um málefni þeirra 230 milljóna barna í heiminum sem ekki njóta borgaralegra réttinda. Það var þrýst á um aðgerðir til þess að bregðast við þessu og mikilvægi þess að bæði ríkisvaldið og einnig foreldrar hafi upplýsingar um það hvernig megi skrá börn við fæðingu og opna fyrir skráningu barna án tillits til þjóðernis, kynþáttar, trúarbragða eða stöðu að öðru leyti.

Fleira var rætt. Það var rætt um og ályktað um vernd gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns, netvæðingu þjóðþinga, lýðræði og ungt fólk og hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir afskipti utanaðkomandi aðila af málefnum fullvalda ríkja. Þá fór fram umræða um baráttu gegn mannréttindabrotum í aðdraganda átaka og viðbragðsflýti þjóðþinga.

Um starf Íslandsdeildarinnar sérstaklega er kannski rétt að geta þess að starfsemin var með hefðbundnum hætti. Íslandsdeildin sem slík var virk í starfi IPU á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og ráðum og á þingum sambandsins. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi sérstaklega og fór þar aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU. Íslandsdeildin tók þátt í norrænu samstarfi, en að jafnaði eru haldnir tveir norrænir samráðsfundir árlega til að fara yfir málefni komandi þinga IPU og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Þess er að geta að formennskan í norræna hópnum flyst milli landanna. Finnland gegndi formennsku á árinu 2016 og Ísland er með formennskuna á árinu 2017.

Ég ætla ekki að fara nánar yfir efni hinna norrænu samráðsfunda, en þeirra er getið ítarlega í skýrslu nefndarinnar. Ég vil bara geta þess að 134. þing IPU fór fram 19.–23. mars 2016 í Lúsaka. Sótti Íslandsdeildin þingið. Það er með sama hætti gerð ítarleg grein fyrir efni þess fundar í skýrslunni og vísa ég til hennar varðandi nánari atriði um þau málefni sem þar komu til umræðu. Sama má segja um 135. þing IPU sem haldið var í Genf 23.–27. október 2016, en þann fund sóttu af hálfu Alþingis Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður Íslandsdeildarinnar, og Ásmundur Einarsson varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara nefndarinnar.

Í skýrslunni er að lokum vísað til ráðstefnunnar World e-Parliament sem haldin var í Valparaiso 28.–30. júní 2016, en Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang sóttu þá ráðstefnu. Þar var fjallað um upplýsingatækni og starfsemi þinga. Í skýrslunni er nokkuð ítarleg umfjöllun um það, en fulltrúar úr Íslandsdeildinni tóku virkan þátt í þessu starfi á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins.

Ég ætla að lokum að geta þess að ályktanir og yfirlýsingar IPU á árinu 2016 eru raktar í lok skýrslu Íslandsdeildarinnar, en þær vörðuðu hryðjuverkastarfsemi og nauðsyn þess að styrkja hnattrænt samstarf í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Ályktað var um hvernig tryggja mætti varanlega vernd menningararfleifðar mannkyns gegn eyðileggingu og hnignun, um stöðu þeirra 230 milljóna barna sem ekki njóta borgaralegra réttinda og hvernig leysa bæri þetta ástand sem talið er afar alvarlegt á 21. öldinni.

Þá er getið um yfirlýsingar forseta IPU á 134. þingi um hryðjuverkaárásirnar í Brussel og af hálfu IPU var verknaðurinn harðlega fordæmdur.

Á 135. þinginu í Genf var ályktað um eftirfarandi atriði: Stríðið í Sýrlandi og alvarlegt ástand mannúðarmála, sérstaklega í Aleppó og loks um frelsi kvenna til fullrar þátttöku í stjórnmálum og aukna samvinnu karla og kvenna til að ná því markmiði.

Eins og af þessari stuttu yfirferð má ráða koma fjölmörg málefni til umræðu á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins. Ef ég má bæta við frá eigin brjósti þá er alveg ljóst að þetta er mikilvægur vettvangur fyrir þingmenn hvaðanæva að úr heiminum til þess að koma saman og ræða málefni sem snerta alla með einum eða öðrum hætti. Þetta þjónar þeim tilgangi að opna augu manna fyrir mismunandi sjónarmiðum, mismunandi sýn ríkja sem búa við ólíkan menningarlegan bakgrunn og ólíkar stjórnmálahefðir og er mikilvægt til þess að stuðla að almennri framþróun lýðræðis og mannréttinda í heiminum.

Ég vísa aftur til skýrslunnar. Hér er að finna ítarlega umfjöllun um þau málefni sem hér hefur verið fjallað um.

Undir þessa skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins rita auk þess sem hér stendur Birgitta Jónsdóttir varaformaður, úr þingflokki Pírata og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir úr þingflokki Sjálfstæðisflokks.