146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þurfti eiginlega að láta segja mér þessar fregnir tvisvar því að ég varð svo hissa á því að þetta væri raunveruleg hugmynd sem menn hefðu sett fram af alvöru. Ég hef velt því fyrir mér hvort stjórnarmeirihlutinn þurfi ekki að fara á einhvers konar námskeið í stjórnkerfi Íslands. Mér finnst hann ekki umgangast Alþingi af mikilli virðingu. Meiri hluti í nefndum hér er jafnvel á móti málum sem koma frá ríkisstjórninni en leggur samt til að þau verði samþykkt óbreytt. Það er eins og stjórnarmeirihlutinn átti sig ekki alveg á því hvað hann er að gera hér í þessum þingsal og í nefndum og hvert raunverulegt hlutverk og vald Alþingis er. Það að ráðherra stofni nefnd og þá sé bara hægt að fjalla þar um mál sem koma frá stjórnarandstöðunni er náttúrlega algjörlega fráleitt. Er það þá þannig að ef menn vilja drepa mál stofnar ráðherra einhverja nefnd og þá er óþægilegum málum vísað þangað? Þetta er algjörlega galið, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)