146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér þykir leitt að heyra að þessi umræða hafi verið í atvinnuveganefnd. Ég þurfti að bregða mér af bæ rétt áður en fundi lauk og það má greinilega ekki fara af fundi, þá verður allt vitlaust. (Gripið fram í.) Ég held að þetta hljóti að vera einhver byrjandamistök hjá hv. formanni nefndarinnar og hann átti sig á því að svona gerum við ekki á Alþingi, við látum auðvitað þau mál sem koma inn á þingið, hvort sem þau eru frá þingmönnum eða framkvæmdarvaldinu, fara sinn eðlilega farveg gegnum þingheim, nefndir og koma aftur hér til afgreiðslu. Ég bíð með mál sem snertir fiskveiðistjórnarkerfið, breytingu á strandveiðum, að gera strandveiðar sveigjanlegar og koma á 12 dögum í mánuði. Ég vil gjarnan fá að mæla fyrir því áður en þingi lýkur til að koma því máli í umsagnarferli, þótt ekki væri annað. Þannig á auðvitað að fara með öll þau mál sem koma hingað inn, þau hljóti þá virðingu að fara í eðlilegan farveg, hvort sem einhver nefnd úti í bæ er að störfum eða ekki, það kemur málinu ekkert við.