146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:44]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Frú forseti. Já, það er rétt að ég er nýgræðingur í þinginu, það er mikið rétt. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessum viðbrögðum. Ég taldi þetta mál hafa verið rætt í friði og spekt. Ég spurði á fundi atvinnuveganefndar í morgun hvort nefndarmenn litu svo á að skipun þessarar þverpólitísku nefndar í gær ætti að hafa áhrif á framgang þeirra mála sem snúa að fiskveiðikerfinu og eru til umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Um þetta áttum við bara friðsamlegar umræður, þetta var engin krafa af minni hálfu. Þetta var meira að segja ekki heldur tillaga af minni hálfu. Þetta var spurning af minni hálfu til þeirra sem málið snerti í nefndinni. Um þetta var rætt í friði og spekt í nefndinni í morgun. Síðan hrökkva allir allt í einu í kút hér, að minnsta kost ég. Þá eru uppi einhver slagorð, einhverjar yfirlýsingar um misbeitingu valds og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var bara spurning til nefndarmanna.