146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[13:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í dag segir landlæknir að sérfræðingar verji of litlum tíma á Landspítalanum og þar með sé öryggi sjúklinga stofnað í hættu. Í annarri grein í sama blaði segir Kári Stefánsson: Ef alvarleg vandamál koma upp á Klíníkinni eru sjúklingarnir sendir niður á Landspítala. Ég spyr: Hvernig virkar þetta þá? Fara sérfræðingarnir með sjúklingunum í sjúkrabíl niður á Landspítala? Þeir eru væntanlega ekki á Landspítalanum, þeir eru væntanlega annars staðar. (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti minnir hv. þingmann á að við ræðum hér fundarstjórn forseta.)

Það er að koma að því, þetta er allt í lagi, hafðu engar áhyggjur.

Vegna þessara alvarlegu ábendinga sem landlæknir kemur með í Fréttablaðinu í dag vil ég kvarta yfir því að hæstv. heilbrigðisráðherra sé ekki hér í óundirbúnum fyrirspurnum, ef forseti skilur nú hvað ég er að fara. Á undanförnum dögum hafa komið fram mjög mörg alvarleg mál sem nauðsynlegt er að ræða en ég tel að allt of lítill tími sé gefinn í óundirbúnar fyrirspurnir þessa dagana.