146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

sameining Tækniskólans og FÁ.

[13:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér varð á fimmtudaginn í síðustu viku talsvert uppnám á Alþingi þegar þingmenn fréttu af því að til stæði að sameina Fjölbrautaskólann í Ármúla og Tækniskóla Íslands. Við áttum talsvert langa rimmu undir liðnum fundarstjórn forseta þar sem fram kom, held ég hjá eina hv. þingmanni stjórnarliðsins sem tók þátt í þeirri umræðu, að við ættum ekki að láta þetta koma okkur á óvart, það kæmi fram í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin hefði áhuga á fjölbreyttum rekstrarformum.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um. Hann er verkstjóri ríkisstjórnarinnar og fer með samskipti hennar við þingið. Það er kannski ekki alveg sanngjarnt að ætlast til þess að samráðsskylda hafi verið uppfyllt með því að vísa til orða í stjórnarsáttmála um fjölbreytt rekstrarform. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er það svo að út frá þeim orðum getum við dregið þá ályktun að ríkisstjórnin hyggist ganga mjög langt í einkavæðingu á almannaþjónustu á þessu kjörtímabili? Er línan sem gefin hefur verið sú að fara eigi út í frekari einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu, menntakerfinu, einkaframkvæmd í samgöngumálum? Er það sú stefna sem við eigum að lesa úr stjórnarsáttmálanum, sem er mjög erfitt að lesa því að hann er mjög hlaðinn mjög stofnanalegu málfari og erfitt að greina neina sýn eða framtíðarstefnu? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það.

Hér voru höfð uppi stór orð um aukið samráð. Við hæstv. ráðherra vitum alveg að hæstv. menntamálaráðherra þarf lögum samkvæmt ekkert að fara með þetta fyrir þingið. Við vitum það alveg. Hins vegar voru höfð uppi mjög stór orð um aukið samráð, gagnsæi og góða stjórnarhætti, eins og segir í þessum sama stjórnarsáttmála. Telur hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin, sem situr hér með eins manns meiri hluta og í umboði minni hluta kjósenda, geti ekki gert betur í að eiga samráð á Alþingi um stórar ákvarðanir, jafnvel þótt hún sé (Forseti hringir.) ekki skyldug til þess að lögum?