146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

auknar álögur á ferðaþjónustu.

[14:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það má vera að við séum ósammála um margt, ég og hæstv. ráðherra, en ég get varla ímyndað mér að hann sé ekki sammála því að ferðaþjónustan víðs vegar um landið hafi hafnað þessum hugmyndum, m.a. vegna skorts á samráði, greiningum og að menn hafi ekki hugmynd um hvaða afleiðingar þessi hækkun hafi á greinina í heild sinni, ekki síst aðilar úti á landi. Og fyrst við tölum um einföldun, það var einföldun á síðasta kjörtímabili að setja alla ferðaþjónustuna í sama þrep. Er það einföldun að nú verði veitingasala í einu þrepi og gisting í öðru? Ég held að það yrði seint kallað einföldun heldur var það akkúrat notað sem rök að það þyrfti að hafa það í einu þrepi til þess að minnka líkurnar á skattsvikum, sem gætu þá aukist núna vegna þess að það er ekki einföldun að hafa það í tveimur þrepum.

Og af því að við þurfum að fara að greiða atkvæði innan tíðar um fjármálaáætlun er auðvitað ekki nóg að á næstu dögum eða vikum verði settur á starfshópur sem á að fjalla um markaðsátak til þess að tryggja ferðamenn út á land. Það er alveg rétt, það þarf að gera það óháð því hvort hér sé hækkaður virðisaukaskattur eða ekki. (Forseti hringir.) En það hljóta að þurfa að liggja fyrir skýrar mótvægisaðgerðir, byggðar á greiningum sem fjármálaráðuneytið (Forseti hringir.) hefur lagt til vegna hækkunar á virðisaukaskattinum.