146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

framlög til framhaldsskólanna.

[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Það er gaman að heyra frá litla bróður hvernig hann horfir á átökin við stóra bróður. Ég verð að segja alveg eins og er; ég hef ekki breytt um skoðun í þessu máli. Ég tel að það sé rétt að efla framhaldsskólana. Það gerum við í þessari fjármálaáætlun með því að efla framlög á hvern nemanda á tímabilinu. Það getur hver maður reiknað út og þarf ekkert að vera að deila um aftur og aftur. Þetta erum við búin að tala um trekk í trekk hérna þegar við vorum að ræða þetta við fyrri umr. um þessa þingsályktunartillögu.

Hv. þingmaður þarf ekki að efast um það. Það er verið að efla framhaldsskólann með því að bæta við framlög á hvern nemanda ár frá ári. Það er ósköp eðlilegt að þegar fækkar um heilan árgang í framhaldsskólanum komi það einhvers staðar niður. Það náist einhver sparnaður. Það er eðlilegt. En sparnaðurinn kemur ekki niður á nemendunum sem í skólanum eru heldur er það þannig að á bak við hvern einasta nemanda verður nú meira fjármagn en áður.