146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:37]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Sú fjármálaáætlun sem liggur fyrir þessu þingi felur í sér talsverða forgangsröðun í þágu velferðarmála og forgangsröðun er þess eðlis að það er ekki hægt að forgangsraða til allra þátta ríkisreksturs í einu. Engu að síður sé ég fyrir mér að við getum vel byggt upp gott vegakerfi á næstu árum. Ef við lítum til suðvestursvæðisins og nágrannabæja sé ég alveg fyrir mér að við getum keyrt frá Keflavíkurflugvelli og austur fyrir Selfoss og norður fyrir Borgarnes, jafnvel lengra, á vegum sem væru til jafns við það sem við þekkjum frá öðrum löndum, tvöföldum vegum eða svokölluðum 1+1 vegum þar sem hinu verður ekki fyrir komið. Til að það geti orðið þurfum við að þora að leita annarra leiða í fjármögnun. Sú umræða á einmitt að eiga sér stað hér, á suðvesturhorninu. Ég er ekki endilega á því að hún eigi jafn vel við þegar um er að ræða algjörlega sjálfsagðar samgöngubætur, lagningu bundins slitlags, breikkun brúa eða lagningu venjulegs tveggja akreina vegar. Hins vegar getur þannig fjármögnun á suðvesturhorninu einmitt losað um fé og haft þau áhrif að við getum líka byggt upp nútímaleg samgöngumannvirki annars staðar á landinu sem ég styð heils hugar að verði gert.