146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er þörf og góð umræða. Þegar kemur að uppbyggingu innviða á landsbyggðinni skiptir voða litlu máli hvað er sagt í þingsal af hálfu ráðamanna, það sem skiptir máli eru þær áætlanir sem ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra ætla að vinna eftir varðandi fjármagn til þessara mála. Þær áætlanir birtast glöggt í fjármálaáætlun næstu fimm ára. Hver er betur til þess fallinn að meta þörfina á uppbyggingu innviða á landsbyggðinni en Samband íslenskra sveitarfélaga? Ég veit það ekki, ég ætla í það minnsta að skoða aðeins umsögn sambandsins um títtnefnda fjármálaáætlun. Hverjar eru áherslurnar? Með leyfi forseta:

„Ekki verður heldur hjá því vikist að gera athugasemd við að aðkoma sveitarfélaganna að gerð fjármálaáætlunar hefur verið engin, þar á meðal um fimmta kafla áætlunarinnar, en þar er fjallað um fjármál sveitarfélaga. …

Framlög til sóknaráætlana til lengri tíma er ekki að finna í fjármálaáætluninni. Það gefur augaleið hversu mikilvægt er fyrir framgang sóknaráætlana landshluta að ganga megi að fjármögnun til lengri tíma vísri.“

Og um húsnæðismálin sem skipta kannski töluverðu þegar kemur að innviðauppbyggingu:

„Kaflinn um húsnæðismál er rýr að vöxtum og endurspeglar engan veginn mikilvægi þessa málaflokks, sem kallar á samstilltar aðgerðir af hálfu ríkis og sveitarfélaga.“

Sem sagt, vegið, metið og léttvægt fundið. Það er afskaplega lítið að finna í fjármálaáætlun um uppbyggingu innviða. Hæstv. ráðherra sagði áðan í pontu um að þegar að samgöngumálum kæmi að sjálfsögðu yrði farið eftir þeim samgönguáætlunum sem lagðar verða fram. Það væri þá ákveðin nýlunda, verður að segjast eins og er. Það er ekki eins og það hafi verið gert við þá samgönguáætlun sem hér var samþykkt síðast í góðum samhljómi en var síðan kastað út um gluggann þegar þurfti að fara að finna fjármuni.