146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að vekja athygli á þessum góðu málum og eins fyrir skýr svör ráðherrans hér í upphafi umræðunnar. Þetta er málaflokkur sem við höfum öll mikinn áhuga á og hefur það komið skýrt fram í umræðum hér í þinginu á undanförnum dögum og vikum.

Það er mjög mikilvægt, eins og ráðherrann og framsögumaður komu inn á, að við þurfum að gefa verulega í í samgöngumálum. Það hafa verið allt of lág framlög til samgöngumála á undanförnum árum og er gríðarlega mikilvægt, ekki síst á landsbyggðinni, að spýta í og taka þátt í innviðauppbyggingu og skapa atvinnulífinu og fólkinu í landinu aukin tækifæri með bættum samgöngum. Ég tek líka heils hugar undir að góðar samgöngur eru hluti af góðu heilbrigðiskerfi, það er gríðarlega mikilvægt. Við erum reyndar öll mjög nálægt hvert öðru og á sömu blaðsíðu í þessum málum.

Við sjáum fram á að fá takmarkað fé í samgöngumálin, þó að það sé ágætisinnspýting á næstu árum og hafi verið á þessu ári, umfram það sem verið hefur, en ljóst er að við þurfum mun meira fé til þess og við þurfum að styðja ráðherrann í því að hann fái meira fé til umráða. Þess vegna finnst mér að við þurfum að taka umræðuna til enda ganganna um gjaldtöku á leiðum til að fjármagna uppbyggingu á vegum og brúm og göngum. Við þurfum að skoða það hvort 3 til 4 lítra bensínsparnaður geti ekki verið hærri upphæð en sem nemur gjaldtöku. Viljum við ekki skoða slíka leið sem gæti skilað betra rými til aukinna framkvæmda á landsbyggðinni í samgöngumálum?