146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:47]
Horfa

Oktavía Hrund Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir þessa umræðu. Fleiri hlutverk á sviði almannaþjónustu hafa verið færð til sveitarfélaganna. Það er á forræði ríkisins að láta peninga fylgja þessum verkefnum. Uppbygging innviða veltur á því. Aukning fjárframlaga til samgöngumála, sem hæstv. ráðherra nefnir hér, er varla upp í nös á ketti og til viðbótar fá sveitarfélögin ekki hagnaðinn frá ferðaþjónustunni til sín til þess að takast á við þær gríðarlegu áskoranir sem henni fylgja. Fjármálaáætlun gerir það að verkum að fjársvelt kjördæmi og sveitarfélög berjast eins og hundar yfir eina og sama sviðakjammanum til þess að geta staðið að uppbyggingu innviða og bætt aðbúnað landsmanna. Finnst hæstv. ráðherra í lagi að setja upp hálfgerða hungurleika milli kjördæma? Á sama tíma segir ríkisstjórnin: Það hefur aldrei gengið betur. Ef svo er, forseti, byrjum þá að borga með öllum þessum gróða og byggja upp innviði í stað þess að stofna mannslífum í hættu með því að hafa vegi eins og Reykjanesbraut.

Við verðum að vinna saman ef við viljum takast á við þessar áskoranir. Við byggjum innviði okkar fyrir Íslendinga og gerum það með því markmiði, svo ég vísi í fjármálaáætlun, að bæta lífskjör landsmanna um allt land. Finnst hæstv. ráðherra að fjármálaáætlun haldi þessari framtíðarsýn til haga?