146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hæstv. ráðherra, það er risastórt verkefni fram undan. Það liggur við að það sé sama hvar maður fer um, allir vegir eru ónýtir eða mjög illa farnir í besta falli og undantekning að finna veg sem ekki þarf á verulega auknu viðhaldi að halda. Það er líka ljóst að til þess að snúa þessari þróun við þarf auðvitað að liggja fyrir heildstæð greining og áætlun um uppbyggingu en ekki bara á sviði vegamála heldur líka hafna, flugvalla, dreifingar orku, þrífösunar rafmagns, húsnæðismála. Það er ágætt að nefna hér ljósleiðarann sem mig minnir að ég hafi skrifað grein um í mars 2013, við sjáum fyrir endann á því verkefni 2020, að því ljúki þá. En þannig er það ekki um öll hin verkefnin sem ég taldi upp. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Mun þess sjá stað í byggðaáætlun? Ég veit að ekki heyra allir þessir þættir undir ráðuneyti hæstv. ráðherra. Mun þar koma fram greining og áætlun um uppbyggingu á dreifingu raforku, um húsnæðismál á landsbyggðinni, um þrífösun rafmagns? Hvenær kemur byggðaáætlunin?

Það er ljóst að það er erfitt að stjórna landi þar sem er mikil þensla og mikill hagvöxtur án þess að allt fari úr böndunum. En það er líka ljóst að þenslan og hagvöxturinn er ekki sá sami alls staðar. Það er einfaldlega núna tækifæri til að fara í verulega uppbyggingu á mörgum þessum sviðum, innviðauppbyggingu, víða úti á landi þar sem áhrifa af þenslunni myndi gæta mun minna en á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er það auðvitað sérkennilegt að við séum að ræða hér um tvöföldun vegna — kannski ekki sérkennilegt vegna þess að þörfin er svo mikil á að tvöfalda hérna vegi. Ég veit ekki annað en að áform sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu hljóði upp á 70 milljarða og þar af eigi 35 að koma frá ríkinu. Ég vildi gjarna heyra álit hæstv. ráðherra á því, hvort hann ætli að koma því inn í fimm ára fjármálaáætlun.

Virðulegi forseti. Það er risastórt verkefni fram undan. Það er ekki aðalatriðið að fara að skattleggja enn frekar þá sem nota vegina. Það eru til aðrar leiðir til þess að búa til tekjur.