146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:52]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir þátttökuna. Á vorin lifnar yfir öllu fólki á ferð og flugi, þó kannski minnst þeim sem búa við holótta og frostskemmda malarvegi. Víða eru aðstæður í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, á þennan veg. Ég þykist ekki vera að segja hæstv. ráðherra neinar fréttir en það ríkir óþreyja. Fram hefur komið að úrbætur á innviðum var eitt af forgangsverkefnum allra flokka síðasta haust. Við getum aflað tekna til að leysa verkefni en hvar er dugur og vilji stjórnarflokkanna? Þjóðin er tilbúin. Ætlar ríkisstjórnin að svara kallinu?

Verkefnin eru margvísleg, bæði smærri og stærri. Stórir áfangar nást með nýjum Vestfjarðavegi 60 í Reykhólahreppi. Ljúka þarf skæklatogi og ná samstöðu strax. Leiðarljósið þar er auðvitað umhverfisvernd og almannahagsmunir. Síðan horfum við til Dýrafjarðarganga, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, sem er stórvirki og því tengjast samhliða vegabætur sem verður að horfa á í samfellu. Í framhaldinu þarf að hefja markvissan undirbúning að jarðgöngum í Álftafjörð og aflétta stórhættulegum samgöngum um Súðavíkurhlíð og reyndar um Kirkjubólshlíð gegnt Ísafjarðarkaupstað líka. Enginn öruggur frambúðarflugvöllur er á Vestfjörðum sem þarf að grandskoða, ekki síst í tengslum við áform um uppbyggingu atvinnulífs og samtengingu í fjórðungnum. En það eru önnur stærri og smærri verkefni sem bíða eins og hafnarbætur og viðhald hafnarmannvirkja á mörgum stöðum sem takmarkar athafnasemi öflugra sjósóknara á svæðinu.

Vestfirðir eru perla í sjálfu sér með ótal möguleika í frumatvinnugreinum og ferðaþjónustu. Á það vorum við minnt um síðustu helgi á framúrskarandi málstofu á Flateyri, Vestfirska vorið, þar sem nokkrir fræðimenn fjölluðu um stöðu Vestfjarða og framtíð. Það var ánægjulegt að heyra bjartsýnistón í ungu fólki á staðnum og trú þess á fjölbreytta möguleika til uppbyggingar en samgöngur eru akkillesarhæll.(Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Í tilefni dagsins: Nú er lag. Tólf stig frá landsbyggðinni ef ráðherra slær hressilegan tón í uppbyggingu innviða í góðri sátt um leiðir.