146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:00]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir snöfurmannleg viðbrögð við ósk minni um sérstaka umræðu um málefni framhaldsskólanna.

Íslendingar hafa undanfarna áratugi búið við ódýrt og öflugt menntakerfi sem hefur verið aðgengilegt öllum landsmönnum óháð búsetu og efnahag. Hin síðari ár hefur þó verið hart að þessu kerfi sótt. Því hefur verið haldið í fjárhagslegri heljargreip og Íslendingum sem náð hafa 25 ára aldri hefur að hluta til verið úthýst úr íslenskum framhaldsskólum auk þess sem kennarar hafa mátt berjast hatrammlega fyrir launum sem í öðrum löndum þættu frekar snautleg miðað við þær kröfur sem gerðar eru og miðað við mikilvægi starfsins.

Síðastliðinn fimmtudag bárust af því fréttir að til stæði að sameina Fjölbrautaskólann í Ármúla og Tækniskólann. Óhætt er að segja að viðbrögð samfélagsins hafi verið neikvæð svo að ekki sé meira sagt. Hér á Alþingi flykktumst þingmenn í pontu til að mótmæla vinnubrögðunum sem viðhöfð voru. Nemendur og kennarar við FÁ ásamt Kennarasambandi Íslands voru snöggir til og fordæmdu fyrirhugaðar breytingar.

Það vekur furðu mína hvernig að þessu máli hefur verið staðið. Leynd hefur hvílt yfir þessum samningaviðræðum, leynd sem ekki stóð til að aflétta, leynd sem var afhjúpuð í óþökk ráðherrans.

Ég spyr mig hvert framhaldið hefði orðið ef þetta hefði ekki kvisast út. Hefði nemendum og starfsfólki verið tilkynnt um niðurstöðuna þegar ákvörðunin hefði raun legið fyrir? Hvenær tilkynnir maður sameiningu skóla og hvenær tilkynnir maður ekki sameiningu skóla? Hvernig berum við okkur að þegar við veltum fyrir okkur svona málum? Við íhugum hver vilji þjóðarinnar í þessu máli sé enda erum við fulltrúar hennar. Við veltum fyrir okkur tilgangi og markmiðum. Við mörkum okkur stefnu í málinu með aðkomu fræðimanna, með aðkomu kennara, nemenda og foreldra. Ekki satt?

Á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun kom fram í máli ráðherra að leitað væri leiða til að styrkja undirstöður verk- og starfsnáms og mátti skilja á máli hans að yfirtaka Tækniskólans á Fjölbrautaskólanum í Ármúla væri leið til þess. Ég er sammála ráðherranum hvað styrkingu verk- og starfsnáms varðar, hún er vissulega nauðsynleg, en set spurningarmerki við fyrirhugaða leið að því. Væri ekki nær að hnýta fyrst alla þá lausu enda sem snúa að þessu námi áður en við förum út í frekari breytingar á rekstrarformi skólanna?

Af rúmlega 100 námsbrautarlýsingum sem kennt er eftir í starfsnámi hafa einungis níu verið samþykktar. Það er svo sem ekki svo að neyðarástand sé uppi vegna þess, en þetta er þó ein dæmigerð birtingarmynd hins vanrækta starfsnáms, ef ég má taka svo til orða, og nú virðist ráðuneytið ætla að hlaupa frá verkinu með því að útvista því til einkaaðila.

Á fyrrnefndum fundi í morgun talaði ráðherrann um ótímabæra umræðu. Ég get ekki verið meira ósammála. Umræða getur haft áhrif og umræða á að hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda og er aldrei ótímabær.

Virðulegur forseti. Ég setti fram þrjú efnisatriði sem grundvöll þessara umræðna. Þau eru í fyrsta lagi framlög ríkisins til málaflokksins, þ.e. framhaldsskólanna, í öðru lagi ólík rekstrarform og í þriðja lagi sameiningar skóla. Auk þess lét ég nokkrar spurningar fylgja í kjölfarið og þær hljóma svona:

Hefur einhver stefnumótunarvinna varðandi ofangreind atriði farið fram?

Hefur verið gerð úttekt á því hvernig til tókst þegar Tækniskólinn varð til?

Hefur samráð verið haft við þá sem málið snertir, þ.e. kennara, nemendur, foreldra, fræðimenn?

Eru fleiri sameiningar fyrirhugaðar, t.d. meðal fámennari skóla, meðal skóla sem standa illa fjárhagslega og meðal skóla sem eru mjög eðlislíkir?