146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:13]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ein af þeim spurningum sem hv. þingmaður ber upp í tengslum við þessa umræðu snýr að mati á sameiningu þeirra skóla sem komu að Tækniskólanum. Ég þykist ekki hafa slíkt mat undir höndum eða kunna vel að framkvæma slíkt mat, en ég vil deila sýn minni á það hvernig slík sameining hafi tekist.

Ég ætla að nefna þrjá þætti. Í fyrsta lagi lít ég til þess að miðað við þær tölur sem ég hef, og ég hef beðið um nýrri tölur frá ráðuneytinu, er Tækniskólinn mjög vinsæll skóli hjá nýnemum. Mjög margir sækja um að komast í hann. Færri komast að en vilja. Án þess að það sé eini mælikvarðinn á gæði menntunar er það oft ágætismælikvarði því að fólk veit oft hvað það vill og fólk veit oft hvað er gott og hvað ekki.

Í öðru lagi langar mig að nefna árangur Tækniskólans í ýmissi keppni, t.d. í Íslandsmóti iðn- og verkgreina þar sem skólanum hefur gengið mjög vel þar sem árangur hans nemenda ef borinn er saman við árangur annarra nemenda, sem og keppni eins og forritunarkeppni framhaldsskólanema sem fram fer í Háskólanum í Reykjavík á hverju ári þar sem nemendum skólans hefur einnig gengið mjög vel. Skólinn stendur reyndar fyrir forritunarkeppni grunnskólanema sem mér finnst mjög gott framtak.

Í þriðja lagi langar mig að nefna mína reynslu frá þeim tíma sem ég var kennari við Háskólann í Reykjavík, en það vakti eftirtekt mína hve vel þeir nemendur sem komu úr Tækniskólanum voru undirbúnir undir það nám í tölvunarfræðideild þar sem ég kenndi.

Ég er ekki að segja að þetta séu einhverjir mælikvarðar sem skipta öllu máli en þetta er alla vega mitt mat. Það er mitt mat að þessi skóli í heild sinni hafi orðið sterkari en þær einingar sem þangað komu og það er því mitt mat að þessi sameining hafi tekist vel.