146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Það má segja að hún sé ákveðið framhald af umræðu sem ég átti við hæstv. menntamálaráðherra 24. apríl sl. þar sem við ræddum einmitt um framtíð verk- og starfsnáms og þar sem ráðherrann upplýsti því miður ekki að hann hefði til skoðunar sameiningu á Tækniskólanum og Fjölbrautaskólanum í Ármúla.

Hins vegar var talað um mögulegan fagháskóla, svona „polytech“-skóla skilst mér að rætt sé um víða erlendis. Ég vil einfaldlega lýsa yfir áhyggjum af því að við séum stöðugt að taka gott verk- og starfsnám og færa það upp á háskólastigið. Ég tel að það hafi ekki endilega skilað sérstaklega góðum árangri. Ég vona svo sannarlega að það sé ekki hugsunin með þeirri yfirtöku sem hér er verið að skoða, yfirtöku Tækniskólans á Fjölbraut í Ármúla.

Hv. þm. Pawel Bartoszek fór í gegnum það að Tækniskólinn byði upp á ágætisnám og hér er ekkert verið að efast um það. Ef við horfum hins vegar á þróunina varðandi opinbert verk- og starfsnám hér á landi þá er það þannig að á sama tíma og nemendum hefur fjölgað í Tækniskólanum við sameiningar við aðra skóla, við opinbera skóla, þá hefur nemendum almennt fækkað sem stunda iðn- og starfsnám. Það getur varla verið tilgangurinn að minnka heildarfjöldann þó að eitthvað fjölgi í einum skóla.

Ég vil hvetja ráðherrann til þess að gera það sem hann sagði í þingsal að hann hefði í hyggju að gera, þ.e. að fylgja eftir þeim tillögum og ábendingum sem komu frá Ríkisendurskoðun varðandi verk- og starfsnámið, að fara markvisst í að samþykkja námsbrautalýsingarinnar, gera nauðsynlegar á breytingar á stjórnsýslunni sem snúa þá að þeim 70 nefndum sem eru starfandi með 350 einstaklingum, efla vinnustaðanámið, (Forseti hringir.) og setja aukna peninga í vinnustaðanámssjóðinn og að bæta námsráðgjöf í grunnskólum (Forseti hringir.) þannig að nemendur fari fyrr í verknám í staðinn fyrir að taka ákvörðun um það (Forseti hringir.) þegar þeir eru komnir vel inn á starfsævi sína. Það held ég að sé líka hluti af skýringunni á því að við höfum (Forseti hringir.) verið með þetta hátt brottfall úr skólum. Menn hafa einfaldlega verið að fara of seint í þetta nám.

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)