146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:31]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þetta þarfa mál. Ég ætla að leyfa mér að vera dreifbýlistúttan, eins og ég er að öllu jöfnu, og koma með aðeins öðruvísi vinkil hér inn. Þegar við ræðum skólamál erum við í raun að fjalla um það mál sem kemur næst kvikunni í öllum samfélögum. Við höfum öll skoðun á þeim og oftar en ekki erum við tilbúin til að taka afgerandi afstöðu og standa með henni í umræðu sem oft verður ansi hörð, eins og dæmin sanna. Um leið og hugmyndir um sameiningu fara á kreik sýna menn sterk viðbrögð. Það er eðlilegt. Hlutverk skólanna er stórt og þeir eru mikilvægar stoðir samfélaganna sem þeir þjóna. Um er að ræða ólíkar stofnanir með ólíkar áherslur.

Við þekkjum litla skóla sem halda vel utan um hvern nemanda og starf þeirra skarast jafnvel við starf sjúkrastofnana. Við spyrjum: Þurfum við að skilgreina hlutverkin betur? Eða erum við kannski tilbúin til að styðja áfram litla skóla sem hefur tekist vel að styðja unga einstaklinga af stað út í lífið? Það vona ég.

Hæstv. forseti. Einhvern veginn er það nú svo að heildstæð menntastefna í skólamálum er ekki til. Ég sé hvergi hvar við ætlum að vera stödd eftir 10, 15 eða 20 ár. Er ekki rétt að líta á skólana í samhengi við og út frá sjónarhóli byggðafestu, hlutverki þeirra í atvinnulífi og félagslegu mikilvægi þeirra?

Það er margt sem við erum sammála um en við þurfum að velja í hvað við setjum peningana í þessum málaflokki eins og öllum öðrum. Það kostar að reka skóla og það má kosta því að mikilvægi þeirra er ótvírætt. Við þekkjum mikilvægi stofnananna í þeim samfélögum sem þær eru í og starfa og þær eru jafnvel hryggjarstykkið í þeim mörgum.

Nú hefur farið á kreik sú hugmynd að sameina skóla í okkar ágæta kjördæmi, Norðausturkjördæmi, mínu kjördæmi og ráðherrans, og ég vil spyrja hann: Eru uppi hugmyndir eða áætlanir um að sameina skólastofnanir á því svæði?