146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:34]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Í ljósi umræðunnar um sameiningu Tækniskóla og FÁ vil ég biðja hæstv. ráðherra að upplýsa þingheim um hverjir taka þátt í þeirri greiningarvinnu sem fer fram núna, sem við höfum margoft rætt á fundum undanfarna daga. Ég spyr einnig hvers konar samráð sé fyrirhugað með hagsmunaaðilum. Ráðherrann hefur oft rætt um mikilvægi þess að verja faglegt og öflugt skólastarf með því að efla verk-, tækni- og iðnmenntun og ekki einblína um of á rekstrarform skólanna. Ég er sammála honum um það en ég tel einnig afar mikilvægt að viðkomandi hagsmunaaðilar séu vel upplýstir svo að fagleg umræða glatist ekki.

Sjálf hef ég persónulega reynslu af sameiningarferli hjá Reykjavíkurborg fyrir nokkrum árum þar sem ég viðurkenni að hafa tekið umræðuna á forsendum hræðslu við breytingar og tapaði þar með af tækifæri til að leita lausna út fyrir boxið og finna nýjar leiðir til að takast á við mjög þarfar breytingar. Ég missti hreinlega af tækifæri til að mæta faglegri áskorun sem ég stóð frammi fyrir í þágu nemenda og bætts skólakerfis.

Ég endurtek því spurninguna: Hvernig mun ráðuneytið tryggja upplýsingagjöf og samráð til þeirra aðila sem koma til með að vinna að sameiningu í raun og tryggja þar með fagleg markmið um að efla verk- og tækninám sem við erum sammála um að sé sameiginlegt forgangsmál, einnig skólakerfinu til bóta.