146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[15:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn fyrri þingsályktun sem þetta frumvarp byggir á af því að við teljum að sú tillaga hafi í raun og veru stangast á við stjórnarskrána. Af þeim sökum munum við sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps. Við erum sammála þeim meginmarkmiðum sem birtast í frumvarpinu og tilrauninni þar til þess að auka eftirlit með fjármálamarkaði en við teljum að því miður sé það framsal valdheimilda sem fer fram í gegnum þetta frumvarp, sem er mjög mikið, mun meira en svo að það geti staðist stjórnarskrá, herra forseti.