146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er góð ábending. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hv. umhverfis- og samgöngunefnd styrki þetta orðalag ef hún vill hvað varðar þessa málsgrein. Minn hugur til málsins hefur þá komið fram hér og er skrifaður í þingtíðindin. Það liggur nú fyrir opinberlega að ég telji þetta mjög mikilvægt og hyggist fara þessa leið.

Það má líka koma fram að ég vil skoða ýmsar leiðir í þessu. Ég held að allur þessi stuðningur þurfi ekkert endilega að koma úr vösum skattgreiðenda heldur getum við á einhvern hátt virkjað þau sem menga til að leggja dálítið aukalega á sig, ef maður getur sagt sem svo, og taka þátt í því að binda það kolefni sem þau losa út í andrúmsloftið. Þá er ég að tala um stóriðjuna sem er með sín reikningsskil annars staðar, en ég hef átt í óformlegum samræðum við ýmsa þar og borið undir viðkomandi hvort þetta væri leið til að leggja líka til samfélagsins hér heima. Ég verð að segja að þessi samtöl lofa góðu og ég vona að við náum þessu inn í stóra planið, aðgerðaáætlunina.

Það er tómt mál að tala um samráð þar. Ég verð eins og aðrir að dæmast af verkum mínum hvað það varðar, en planið er ekki tilbúið. Við höfum ekki hafið þetta samtal eða þennan verkþátt verksins. Samstarfsyfirlýsing þess efnis var undirrituð á föstudaginn og nú er ekki eftir neinu að bíða. Hún hefur auðvitað verið í undirbúningi en það er ekki eftir neinu að bíða með að hefja þetta samráð þannig að ég get fullvissað hv. þingmann um að það er ekki verið að bjóða stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) seint að borðinu þegar búið er að ákveða allt eða eitthvert sýndarsamráð eða hvaða orð sem fólk vill nota um það. Hér erum við bara að hefjast handa og ég vonast til þess að stjórnarandstaðan geri það með okkur.