146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan efast ég ekki um vilja og hug ráðherrans til þess að hafa raunverulegt samráð á þessu mikilvæga sviði, um loftslagsmálin. Þetta varðar okkur öll, ekki bara stjórn og stjórnarandstöðu, heldur almenning allan á Íslandi og reyndar almenning um allan heim. Þessum málum verður ekki komið í ásættanlegt horf nema allir leggi sitt af mörkum. Þess vegna kemur mér heldur ekki á óvart að forsvarsmenn stórfyrirtækja hafi hug á því að leggja slíku lið. Ef allur almenningur í landinu er tilbúinn að taka þátt í því hef ég þá trú á íslenskum fyrirtækjum að þau hafi einnig hug á því að leggja sitt lóð á þær vogarskálar. Það breytir ekki því, og ég heyri að hæstv. ráðherra er sammála mér um það, að það er mikilvægt að í frumvarpi um landgræðslu komi fram vilji stjórnvalda til að styðja við þá sem stunda landgræðslu og hafa stundað um árabil og sjá svo sem ekki eftir því þó að þeir hafi gert það í sjálfboðavinnu. Það væri samt eðlilegra, vegna þess að menn eru auðvitað að nota stór tæki og dýr, að sá stuðningur væri ekki bara í orði heldur einnig á borði og að vilji löggjafans sæist í frumvarpi um landgræðslu.