146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég hélt hér nokkuð langa ræðu í síðustu viku undir þessum lið en þá var hæstv. umhverfisráðherra ekki í salnum þannig að hún heyrði sennilega ekkert af því sem ég sagði. Ég ætla ekki að endurtaka það, en vegna þess að lögin, eins og ég orðaði það, hvetja til enn röskari aðgerða langar mig aðeins að ræða það. Það er bót að þessum lögum. Það er fullt af ljósum punktum og gagnleg markmið o.s.frv. í frumvarpinu og sjálfsagt að styðja það af fremsta megni. Hins vegar er spursmál um þá fjármögnun sem þar kemur fram. Við ræðum um bindingu kolefnis í tengslum við landgræðslu og ég skil það sem svo að hæstv. ráðherra telji mjög mikilvægt að spýta í. Eins og hún segir er ekki stóra málið hvort almennir skattgreiðendur eða notendur auðlinda koma þarna við sögu og leggja það fram, ég held að það hljóti að vera blanda af öllu þessu. Það kom fram í máli núverandi forstjóra Landgræðslunnar þegar við ræddum við hann á nefndarfundi að hægt væri að tvöfalda bindingu kolefnis á ári með u.þ.b. 500 millj. kr. framlagi eða ígildi þess hvaðan sem það kemur og að fjórföldun á þessari bindingu myndi kosta nokkur hundruð milljónir í viðbót.

Við höfum ríkisfjármálaáætlunina eins og hún er og við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar erum nýbúin að vinna umsögn um hana. Þegar maður sat og reiknaði sá maður að til afgangs voru fjármunir upp á kannski 200–250 milljónir á ári þegar búið var að draga frá framkvæmdir, þ.e. byggingarframkvæmdir og ýmislegt slíkt, þannig að ef maður hugsar til þeirra fimm ára sem eru fram undan, 40% af tímanum sem er til reiðu fram til 2030 þegar Parísarsáttmálamarkmið okkar eiga að vera komin fram, er ekki að sjá að við séum í raun að taka stórt skref að þessu leyti.

Parísarsamkomulagið gerir ekki ráð fyrir ótakmarkaðri bindingu kolefnis og áframhaldandi losun, þvert á móti, þannig að við þurfum að gera hvort tveggja.

Ráðherra hefur mikinn áhuga á þessum málum og telur mjög mikilvægt að við náum raunverulega verulega miklu meiri árangri en við höfum náð hingað til. Það má líka tala um endurheimt votlendis sem er sennilega inni í þessum tölum og mig langar að vita hvernig hún hyggist beita sér fyrir því samhliða þessum nýju lögum að fá verulega aukið fjármagn til þessa liðar. Eins og ég segi eru þær 200–250 milljónir sem eru til reiðu hugsaðar í ótal aðgerðir sem eru listaðar upp í ríkisfjármálaáætluninni innan þessa kafla. Hvernig hyggst hún beita sér í því að ná raunverulegum fjármunum til bindingar sem er þá hluti af baráttunni fyrir því að ná loftslagsmarkmiðum okkar?