146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mér ljúft og skylt að koma upp og svara fyrirspurn hv. þingmanns. Eins og hann heyrði kannski fór ég yfir það áðan með þeim hv. þingmanni sem var á undan honum hvernig ég væri að opna á ýmsar hugmyndir um það hvernig aðrir aðilar en beinlínis skattgreiðendur legðu til fé í þennan málaflokk. Því hefur verið vel tekið. Ég sá að hv. þingmaður var í salnum þegar við fórum yfir það þannig að ég þarf kannski ekki að endurtaka mig. Því hefur verið vel tekið, en auðvitað er ekkert neglt niður. Ég er sammála hv. þingmanni um að í þennan málaflokk þarf aukið fé, það liggur alveg fyrir. Svo eru ýmsar leiðir til þess. Að því vinn ég og það verður unnið í þeirri aðgerðaáætlun sem flokkur hv. þingmanns mun hafa aðgengi að og getur lagt í púkkið hvað þetta varðar.