146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:44]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Allt er þetta góðra gjalda vert en ég lít öðruvísi á málið. Alvarleiki loftslagsbreytinga og alvarleiki þess að hafa gengist undir Parísarsamkomulagið er þess eðlis að hugmyndir, kannanir og athuganir á því hvaða leiðir gætu hugsanlega verið færar o.s.frv. — ég er ekki að gera lítið úr orðum hæstv. umhverfisráðherra, fjarri því, bendi bara á að alvarleikinn er það mikill að til að ná örugglega þeim árangri sem við stefnum að verður hið opinbera að hafa miklu öflugri fjárhagslega forystu í þessari baráttu. Hana er ekki að finna í ríkisfjármálaáætluninni og hana er heldur ekki að finna í neinum haldbærum tillögum sem við höfum séð um fjáröflun svo hundruðum milljóna og sennilega milljörðum skiptir til þess að ná raunverulega þeim árangri sem við stefnum að.