146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[18:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, fyrir að taka þátt í 1. umr. um málið. Ég vil að málið fái góða umræðu og vænti þess að umhverfis- og samgöngunefnd sendi málið til umsagnar en síðan verði það, eins stórt og það er, rætt í rólegheitum. Ég legg ekki áherslu á að þetta verði klárað á nokkrum dögum fyrir þinglok, bara alls ekki. En það er hins vegar mikilvægt að koma því til umsagnar. Það er brýnt, eins og hv. þingmaður veit, að fara að skipuleggja þessi svæði, sérstaklega á Vestfjörðum.

Mér þykir gæta ákveðins misskilnings, vona ég, í máli hv. þingmanns þegar hann talar á þá leið að vegið sé að skipulagsvaldi sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa ekki haft þetta skipulagsvald. Hér er um að ræða svokallaðan hafalmenning sem er á forræði ríkisins. Við vitum það auðvitað, en mikilvægt er að skipuleggja og ekki bara út frá ákveðnu sveitarfélagi heldur ekki síst út af heildarhagsmunum og heildarsamræmi. Ég hef lagt áherslu á það og vil að sveitarfélögin, í gegnum svæðisráðin, fái aðkomu þar að. Það hefði verið hægt að fara þá leið að sleppa því, mér hefði fundist það óviturlegt. Ég vil að sveitarfélögin komi að málum. En auðvitað er skipulag á haf- og strandsvæðum ekki einkamál þeirra sveitarfélaga sem nákvæmlega liggja að þeirri strönd heldur liggja almannahagsmunir undir og þessi mál eiga að ræðast sem slík.