146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[18:22]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu þar sem farið var í nokkuð ítarlegu og góðu máli yfir ýmis þau álitaefni sem við þurfum að taka afstöðu til þegar að þessu máli kemur því að þetta er á engan hátt einfalt mál. Hv. þingmaður kom ágætlega inn á ýmis þau álitaefni, verkaskiptinguna. Þarna sjáum við skörun á milli svæðis- og aðal- og deiliskipulagsáætlana og svo aftur strandsvæðisskipulaga. Það eru dálítið stórar spurningar sem liggja undir um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem þarf að mínu viti að taka mjög vel grundvallaða afstöðu til og ekki hægt að kasta til höndum þegar að þeim málum kemur, sama hver niðurstaðan verður, enda sagði hv. þm. Teitur Björn Einarsson að við þyrftum að vanda vel til verka.

Við hv. þingmaður sitjum nú saman í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem mun fá þetta mál til umfjöllunar. Af því að mér finnst hv. þingmaður spyrja grundvallarspurninga og ég er sammála því að vanda þurfi mjög vel til verka í þessu máli vil ég spyrja: Telur hv. þingmaður að tími gefist til að svara þeim grundvallarspurningum í svona máli á þeim tíma sem eftir er af þessu þingi? Því að þetta eru ansi stórar spurningar er varða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hv. þingmaður tæpti hér á.