146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[18:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir þau sjónarmið að það eru stór málefni sem hér liggja undir hvað þetta frumvarp varðar. Ég er mikill talsmaður vandaðrar stjórnsýslu, eins og hv. þingmaður, og ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns og fannst ýmislegt áhugavert þar sem verður spennandi að vinna nánar. Ég nefni t.d., án þess að taka neina beina efnislega afstöðu til þess, aðra viðmiðunarreglu um netlög, metra, dýpi eða hvað það er. Þetta er mjög áhugavert og þarf að skoða í grunninn.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að hann mun fá stuðning minn innan hv. unhverfis- og samgöngunefndar til að vinna þetta mál vandlega, fara djúpt ofan í þau álitaefni sem hann kom inn á og vinna þetta mál þannig að vandað verði til verka, ég tala nú ekki um þegar við erum farin að ræða um að koma upp nýjum viðmiðunarreglum öðrum en þeim sem hér hafa verið við lýði um langa hríð. Þær þarfnast mikillar skoðunar við og hv. þingmaður getur treyst því að fá minn stuðning í að fara í þá miklu vinnu sem fram undan er.