146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

505. mál
[18:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er frumvarpið ekki mjög stórt í sniðum. Það er pínulítið flókið að lesa sig í gegnum það. Áfallnar greiðslur vegna vaxta, verðbóta vaxta, arðs og samningsbundinna afborgana höfuðstóls lánaskuldbindinga fyrir lokagjalddaga og verðbætur þeirra — þetta er gríðarleg setning að lesa sig í gegnum.

Það sem ég velti fyrir mér er eftirlit.

„Tilkynna skal Seðlabanka Íslands um úttekt samkvæmt 1. málsl. innan fimm virkra daga frá því að hún á sér stað.“

Nú var það dálítið þannig með höftin að fólk gat reynt að koma pening út. Ef Seðlabankinn náði því voru enginn viðurlög. Bara: Nei, þú mátt þetta ekki! Ekkert varð þá af millifærslunni.

Hvernig getum við verið viss um að verið sé að flytja út fjármagn sem þetta á við um? Ef það á ekki við um þetta, eru þá einhver viðurlög við því? Hversu öruggt er eftirlitið með því að farið sé eftir lögunum? Eru einhver viðurlög við að reyna að svindla á þessu kerfi? Ég íhuga nefnilega hækkunina úr 1 milljón upp í 100 milljónir. Það er dálítið stórt stökk. Ég veit ekki hversu varfærið það er eins og kom fram í orðum hæstv. fjármálaráðherra. Og hvaðan sú uppástunga kom, væri líka áhugavert að heyra.