146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er í hæsta máta undarlegt að sérstaklega sé beðið um afbrigði við mál sem síðan er ekki hægt að mæla fyrir. Undir öllum öðrum kringumstæðum, ef þetta væri bara mál á dagskrá og einhver uppstokkun hefði verið gerð, væri það ekkert vandamál. En fyrst sérstaklega var beðið um að koma málinu á dagskrá með stuttum fyrirvara er ekki eðlilegt að því sé ekki fylgt eftir með framsögu. Nú gæti það jafnvel verið svo ef næsta mál á dagskrá fer af stað að umræður um það gætu vel staðið til miðnættis. Það kæmi mér ekki á óvart því að það er ágætlega umdeilt frumvarp, eftir því sem ég hef heyrt í samfélagsumræðunni, og getur verið að þetta mál komist bara alls ekkert á dagskrá í kvöld.

Ég legg eins og aðrir hv. þingmenn til að við frestum fundi til níu. Þá getum við tekið (Forseti hringir.) þetta mál á dagskrá og rætt það eins og átti að gera í dag.