146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:28]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þetta, ég er mjög undrandi á þessum framgangi mála. Hér er verið að greiða fyrir málum. Það gerir maður af fyllstu einlægni og trú á að hér verði málin rædd. Nú kann vel að vera að hæstv. ráðherra hafi fullgilda afsökun fyrir þessari fjarveru. Ég ætla ekkert að fullyrða um það. En ef svo er ekki finnst mér þetta jaðra við að vera að gera svolítið lítið úr okkur, ætla okkur að hinkra eftir að ráðherra þóknist að koma. Ég held að það séu ekki ásættanleg vinnubrögð en tek fram að ef svo er ekki og fullgild ástæða er ber ég virðingu fyrir því. Mér finnst kannski rétt að við fáum bara að vita af því þá hver ástæðan er og legg til að hér verði gert fundarhlé.