146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við komum hér upp í fundarstjórn forseta ekki bara okkur til skemmtunar. Þetta er grafalvarlegt mál. Eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á er sambærilegt mál forgangsmál okkar Vinstri grænna þinginu, um keðjuábyrgð. Það er mjög mikilvægt mál. Búið er að veita afbrigði um málið fyrir hæstv. ráðherra. Svo virðist sem hann haldi að hann geti látið þingið sitja og standa eftir sínu höfðu. Það er ekki boðlegt gagnvart þingræðinu að koma svona fram. Hann sem nýr ráðherra á ekki að byrja feril sinn með svona vondum vinnubrögðum. Við mótmælum hérna, þingið, þeir þingmenn sem hér eru og ætluðu að taka þátt í þessari umræðu. Við mótmælum öll þessum vinnubrögðum og förum fram á að gert verði hlé þar til hæstv. ráðherra sér sér fært að koma í hús. (Forseti hringir.) Ég vil fá að vita hvar hæstv. ráðherra er? Er hann í Eurovision-partíi? Eða hvar er hann? Við erum hér. (Gripið fram í.)