146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða heldur þreytt tilbrigði við stef, að þurfa að standa hér trekk í trekk og tala um eðlileg samskipti framkvæmdarvaldsins við löggjafarvaldið. Síðast gerði ég það um klukkan tvö í dag. Það er náttúrlega ekki hægt að ríkisstjórn sem stígur sérstaklega fram sem fulltrúi einhverra nýrra vinnubragða, minna fúsks, skuli hegða sér svona, með aldagömlum hugsunarhætti gagnvart því valdi sem henni hefur verið veitt og er með, í umboði Alþingis.

Ég hef setið hér í þingsal eins og ég hef mögulega getað. Þeir eru ekki margir klukkutímarnir sem ég hef misst úr þingfundum. Mjög oft eru þeir stjórnarþingmenn sem sitja í salnum teljandi á fingrum annarrar handar. Ráðherrar sem taka þátt í umræðum um mál, sem eru jafnvel forgangsmál ríkisstjórnarinnar, sjást nú ekki mikið hér. Ég átta mig ekki alveg á því hvers lags framkoma þetta er (Forseti hringir.) gagnvart löggjafarvaldinu, hvert ríkisstjórnin sækir umboð sitt. Það er eins og hún átti sig einfaldlega ekki á því.