146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru náttúrlega slík handarbakavinnubrögð hjá þessari ríkisstjórn og þessum stjórnarmeirihluta að það verður lengi í minnum haft. Það var varla hægt að byrja þingfund í dag því að hv. þm. Páll Magnússon hafði klúðrað fundi í atvinnuveganefnd. Svo sitjum við uppi með að ráðherrar biðja um afbrigði fyrir málum og geta svo ekki verið á staðnum til að mæla fyrir þeim málum. Er ekki rétt að slíta þessum fundi og menn fari bara að ráða ráðum sínum?

Ég sé að hv. þm. Birgir Ármannsson er búinn að biðja um orðið, enda er hann formaður þingflokka stjórnarflokkanna gervallra, því að aðrir formenn þingflokka í stjórnarmeirihlutanum ræða ekki þingstörfin. Hann mun væntanlega segja okkur að við séum að eyða tímanum í vitleysu því að það hefur hann iðulega gert undir svipuðum kringumstæðum. (Gripið fram í.) Og benda okkur góðfúslega á að við eigum að haga okkur einhvern veginn öðruvísi. En ég held að hann ætti frekar núna að boða til fundar í sínu baklandi því að þrátt fyrir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í dag, að minni hlutinn réði engu, (Forseti hringir.) sem voru hans orð, er það svo að hér er Alþingi að störfum og það á að umgangast það af virðingu. Það þarf hv. þm. Birgir Ármannsson líka að gera og hans formaður, Bjarni Benediktsson. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)