146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[20:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem mælir fyrir þessu máli í fjarveru hæstv. félagsmálaráðherra. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra geti svarað því sem mig langar að spyrja um í ljósi þess að frumvarpið snýst um, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör þeirra starfsmanna, þ.e. þetta frumvarp snýst fyrst og fremst um útlendinga, erlenda starfsmenn á vegum erlendra fyrirtækja. Hugsanlega er það vegna þess að hér er verið að innleiða EES-tilskipun. En sú spurning sem hlýtur að koma upp er: Af hverju er ekki gengið lengra? Af hverju er ekki verið að tala um allan innlenda vinnumarkaðinn, óháð þjóðerni? Er frumvarpið mótað af því að við teljum að þetta geti hreinlega ekki gerst hér á landi, að við séum einhvern veginn með það góða stöðu að við teljum að ekkert slíkt geti þrifist hér á landi en þetta eigi eingöngu við um erlenda starfsmenn hjá erlendum fyrirtækjum? Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ríkisstjórn líti á þetta sem einhvers konar áfanga á leiðinni, hvort hún telji eðlilegt að það eigi að innleiða slíka ábyrgð á allan vinnumarkaðinn óháð þjóðerni eða hvort það sé þá mat ráðuneytisins að þetta sé ekki vandamál sem þurfi að eiga við á innlendum vinnumarkaði, þurfi að eiga við þá með einhverjum öðrum hætti. Það er þetta sem mig langar að fá hæstv. ráðherra til að svara.