146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[20:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög skýra og greinargóða framsögu um ákaflega flókið mál sem er á mörgum síðum með miklum skýringum. Það er ljóst að félagsleg undirboð eru orðin aðkallandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði. Löggjafinn hefur ekki brugðist nægjanlega við hingað til. Vinnumarkaðurinn ekki heldur. Þess vegna hafa ýmis sveitarfélög, ég nefni Reykjavíkurborg og Akureyri, og fyrirtæki, ég nefni Landsvirkjun sérstaklega, sett sér sínar eigin reglur um keðjuábyrgð til þess að tryggja að allir sem vinna fyrir viðkomandi aðila í gegnum verksamninga eða verkkaup njóti sömu réttinda og skylt er samkvæmt lögum og kjarasamningum. Það á ekki bara við um byggingariðnað og mannvirkjagerð, eins og hér er verið að tala um, heldur m.a. um kaup á þjónustu og vöru, eins og er í reglum Landsvirkjunar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort lagasetning af þessu tagi geti orðið takmarkandi fyrir þau sveitarfélög og fyrirtæki sem þegar hafa sett sér miklu ítarlegri og strangari reglur en hér um ræðir og gilda um erlenda ríkisborgara, erlend fyrirtæki og á EES-svæðinu. Getur þetta eyðilagt það verk sem búið er að vinna hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjunum?