146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[20:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég svari síðustu spurningu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur strax: Nei, alls ekki. Það á alls ekki að koma í veg fyrir það, svo það sé skýrt hver vilji löggjafans er hvað þetta varðar. En ég vil líka benda á að hæstv. félagsmálaráðherra, ekki starfandi ráðherra sem hér stendur heldur hæstv. félagsmálaráðherra Þorsteinn Víglundsson, hefur lagt fram frumvarp um jafna meðferð starfsfólks á vinnumarkaði. Við tökum þessi mál mjög alvarlega.

Mér skilst á fólki hér í hliðarsal, sem eru sérfræðingar frá félagsmálaráðuneytinu, að við séum ekkert endilega komin á tíma með innleiðingu á þessari tilskipun. Eigum við að skoða verklag síðustu ríkisstjórnar og jafnvel þeirrar þar á undan? Þá tók þetta svolítið lengri tíma. Mér finnst skipta máli að við erum á undan tímaplaninu hvað þetta varðar af því að þetta er óboðlegt ástand eins og það er í dag. Það getur vel verið að við höfum öll viljað sjá stærri skref stigin, en mér finnst rétt að greina frá vilja félagsmálaráðherra og því sem ég segi hér í þingsal, að við ætlum að passa upp á að ákveðnir hlutir á vinnumarkaði sem hafa komið upp af og til í gegnum tíðina og svartur blettur á vinnumarkaðnum, geri það ekki hér undir íslenskum lögum og reglum.