146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[20:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Nýjasta undirboðið á innlendum vinnumarkaði eru rútur sem fara hér um á erlendum númerum, koma með Norrænu, eru fluttar hingað til landsins og dvelja hér um lengri eða skemmri tíma, ekki aðeins eins og leyfilegt er, að aka með þá farþega sem koma og fara með þeim aftur úr landi heldur eru þær staðsettar hér og látnar fara lengri ferðir um lengri tíma og undirbjóða íslensk rútufyrirtæki um allt að 50% eftir því sem Samtök ferðaþjónustunnar og forseti ASÍ og fleiri hafa bent á.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún að ákvæði þessa frumvarps taki til þeirrar starfsemi? Hefur farið fram einhver athugun á því? Hefur ráðherra kynnt sér stöðu þessara mála? Ef svo er ekki, hvaða önnur úrræði sér ráðherrann til þess að (Forseti hringir.) stemma stigu við þessari óheillaþróun?