146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir, pælingar og vangaveltur sem eru mjög áhugaverðar og gildar í þessu samhengi. Ég vil draga fram að lausnin í þessu frumvarpi er samræmingarbreytingar. Þetta eru breytingar til þess að samræma til að mynda dagsektarákvæði hinna ýmsu stofnana, Vinnueftirlitsins, Vinnumálastofnunar og fleiri þannig að þetta verði sambærilegt og þá um leið gegnsætt, ekki of flókið. Grundvallarprinsippið og hugmyndin í frumvarpinu er að tryggja réttindi útsendra starfsmanna til jafns við Íslendinga. Það er grunnhugsunin í þessu, sem ég tel mjög mikilvægt að við lögfestum sem fyrst.

Hv. þingmaður spyr hvort útlendingar þurfi, þegar eftirlitsstofnanir koma á staðinn, að sýna fram á fleiri gögn? Nei. Þeir þurfa ekki að gera það. En eftirlitsstofnanirnar, eins og ég skil frumvarpið, geta farið inn á vinnustaði og krafist þess að fyrirtækin sýni þá pappíra sem um ræðir. Útlendingarnir eiga ekki að þurfa þess. Það er bara til að tryggja að þeirra réttur, útsendu starfsmannanna, sé jafn á við Íslendinga og farið sé eftir kjarasamningum.

Varðandi rammann sem slíkan: Því miður er þetta alls konar, ýmsir siðir hvað þetta varðar. En oft hefur verið látið duga að þegar frumvörp eru sett fram og menn sjá að það geti rúmast innan ramma laganna, innan þess fjárhagsramma sem er ætlaður stofnunum, sé það látið gilda. Sérstaklega þegar liggur á. En hvort það séu rétt vinnubrögð skal ósagt látið.