146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvægt mál eða varðar mikilvægt svið. Það er skaði að fá það svona afar seint á þingvetrinum. Engu að síður er þó gott að þessi vinna sé komin hingað inn, hvernig sem mönnum reiðir svo af með að afgreiða málið. Það væri ákaflega æskilegt að taka sem fyrst til hendinni í þeim efnum. En það má heldur ekki kasta til höndunum. Frumvarpið er þrátt fyrir allt býsna flókið, einar 60 greinar, og kemur inn á vinnulöggjöfina á mörgum stöðum. Það er til nokkurs ætlast að menn setji sig inn í það í hvelli og sannreyni að það nái á allan hátt tilgangi sínum, sem við skulum ætla að allir vilji að það geri.

Fyrst aðeins um vandamálið. Það þarf ekki að deila um það. Í orði kveðnu a.m.k. taka allir undir að við viljum ekki sjá hér félagsleg undirboð, viljum ekki að farið sé illa með erlent verkafólk sem kemur úr bágum aðstæðum og lætur bjóða sér hvað sem er, þekkir aðra hluti heiman að frá. Því fylgja svo mörg siðferðileg og mannréttindaleg ávirðingarmál að það hálfa væri nóg. Þetta er óverjandi í svo mörgu tilliti. Þessu tengist mjög gjarnan svört starfsemi. Oftast eru þetta í raun og veru skattundanskot, bara sjálfkrafa ef um er að ræða félagslegt undirboð í launakjörum, þar með er ekki verið að greiða skatta af eðlilegum fjárhæðum í launaveltunni. Það er oft stutt í mansal og alls konar sóðaskap í tengslum við þetta. Gleymum svo ekki aðbúnaðarhliðinni, því sem snýr að ekki bara launakjörunum heldur aðbúnaði, öryggi á vinnustað og þar fram eftir götunum.

Þetta er ólíðandi gagnvart þeim aðilum sem vilja hafa allt sitt á hreinu, sem borga starfsfólki sínu vel og búa vel að því og búa þá við skerta samkeppnisstöðu gagnvart aðilum af þessu tagi. Þetta er sérstaklega alvarlegt í tilviki Norðurlandanna. Vandinn er sá að við skulum vera að takast á við þessi vandamál með einhverjum evrópskum tilskipunum þar sem vinnurétturinn hefur verið og er miklu veikari en hann hefðbundið séð er á Norðurlöndunum. Það hefur verið sótt að hinu norræna vinnumarkaðsmódeli undanfarna áratugi, þar á meðal af Evrópudómstólnum og að hluta til af evrópsku vinnulöggjöfinni, af samkeppnisvæðingu vinnumarkaðarins í Evrópu. Auðvitað ættum við að vera að verja hér miklu strangari og sterkari vinnulöggjöf. Það ætti frekar að vera að sækja að okkur utan frá. Það er pínulítið búið að hafa endaskipti á hlutunum þegar við þurfum að fara að innleiða evrópska tilskipun til að koma hlutum af þessu tagi í lag á íslenskum vinnumarkaði. Þetta ætti að vera öfugt, að við þyrftum frekar að verja og réttlæta gerðir okkar gagnvart því að hér væri löggjöfin svo ströng.

Um kjarasamningana, félagslega kjarasamninga sem norræna vinnumarkaðsmódelið byggir á, kollektíva samninga, ef maður má sletta því, frú forseti, er mikilvægt að hafa í huga að staða þeirra í norræna vinnumarkaðsmódelinu er náttúrlega mjög sérstök. Þeir mynda í reynd lögbundin lágmarkslaun. Það er þannig. Í staðinn fyrir að festa lágmarkslaun í lög í krónum og aurum er kjarasamningunum gefið lagagildi að þessu leyti, að það sé bannað að greiða nokkurs staðar lægra en það sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um. Þetta er auðvitað sérstakt einkenni norræna vinnumarkaðarins og er enn við lýði hér. Sums staðar annars staðar nálgast menn þetta á einfaldan hátt: Það stendur bara í lögum að það megi ekki greiða neinum minna en 10 evrur eða 8 dollara eða hvað það er á klukkustundina fyrir dagvinnu. Þá myndar það grunninn sem miðað er við. En hér eru það kjarasamningarnir. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt, og í öllu tilliti, að menn komist ekki upp með að grafa undan þeim.

Þá aðeins betur að þessu frumvarpi, að því marki sem maður hefur haft tíma til að kafa ofan í það. Í fljótu bragði er nálgunin að mörgu leyti góð. Ég t.d. tel hárrétt að reynt sé að ná utan um málið í heild með því að láta það taka til sjálfstætt starfandi aðila og með því að flokka engan sjálfstætt starfandi nema hann sé einn að vinna hjá sjálfum sér. Um leið og hann hefur menn í vinnu er hann orðinn fyrirtæki. Með því að þetta taki til útsendra starfsmanna og til starfsmannaleigna dekkar þetta nokkuð vel þann geira sem almennt er uppi í þessari umræðu. Og þó? Á grundvelli EES-samningsins getur fólk komið hingað, á grundvelli frjálsrar farar, og ráðið sig í vinnu hér, af öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenskir lögaðilar geta að sjálfsögðu látið það líta þannig út að fólk sem þeir ráða komi sjálft og leiti sér hér að vinnu. Við vitum að þar hefur stundum verið pottur brotinn, þótt það hafi ekkert með starfsmannaleigu að gera, það séu ekki útsendir starfsmenn og ekki einhverjir sjálfstætt starfandi. Við þekkjum dæmin þar sem menn hafa verið undirborgaðir, búið í gámum, og stærstur hluti þeirra smánarlauna sem þeim voru greidd er tekinn af þeim í húsaleigu. Þannig hefur þetta sums staðar verið. Þetta er algerlega óþolandi.

Ég held að við þurfum að fara vel yfir það í þessu máli: Nær það samt nógu vel utan um hlutinn?

Þá kem ég að hinni takmörkuninni sem stingur í augu. Keðjuábyrgðin er hér aðeins innleidd í byggingarframkvæmdum og mannvirkjagerð. Af hverju það? Hvaða rök eru fyrir því? Er ekki ástæða til að ætla að í hraðvaxandi atvinnugrein ferðaþjónustu sé líka pottur brotinn? Getur þetta ekki átt sér stað í þjónustustörfum víða alveg eins og í verklegum framkvæmdum? Jú, ég er hræddur um það. (Gripið fram í: Ræstingu.) Ræstingu þess vegna eða hvað það nú heitir. Ég held að við þurfum að fara vel yfir það. Er ekki ansi metnaðarlítið að fara bara inn þarna? Mér finnst þetta vera svolítið gamaldags hugsun. Jú, auðvitað þekkjum við þetta og erum brennd af reynslu í mannvirkjagerð eins og af Kárahnjúkum, öll þau ósköp sem gengu nú á þar. En við þurfum líka að skoða aðstæðurnar eins og þær eru á vinnumarkaði í dag. Hvar er erlenda vinnuaflið að hellast inn þessa mánuðina og misserin? Það er inn í ferðaþjónustuna. Það er í þjónustustörf, ekki endilega í mannvirkjagerð. Þarna þarf að skoða málin.

Síðan er farið létt yfir fjárhagshliðina á þessu og sagt að þetta kalli ekki á aukin útgjöld. Á mannamáli þýðir þetta að Vinnumálastofnun á að taka við framkvæmd þessarar nýju löggjafar án þess að fá sérstaklega eina einustu krónu í það. Við vorum að ræða frumvarp fyrir nokkrum kvöldum síðan um atvinnu, auknar virkniráðstafanir og atvinnuaðgerðir í þágu atvinnuleitenda og fatlaðs fólks. Hvað stóð þar í kostnaðarmatinu? Hefur ekki áhrif af því að Vinnumálastofnun á að taka þetta á sig, umtalsverða fjármuni. Það fer að taka í hjá henni ef hvert frumvarpið á fætur öðru sem færir aukin verkefni til stofnunarinnar gengur út á að Vinnumálastofnun taki þetta á sig. Auðvitað er ekki trúverðugt að hugur fylgi máli, ef þetta á að verða þetta mikla plagg í baráttunni við svarta vinnu og félagsleg undirboð.

Ég tel einboðið að fjárfesta myndarlega í efldum aðgerðum á þessu sviði. Það á að taka til Vinnumálastofnunar, til ríkisskattstjóra, og ég teldi jafnvel réttlætanlegt að hið opinbera hlypi að einhverju leyti undir bagga með aðilum vinnumarkaðarins til þess að þeir gætu verið beinir þátttakendur í eftirliti og vinnustaðaheimsóknum, eins og í tilfelli átaksins Allir vinna og samstarfi ríkisskattstjóra og aðila vinnumarkaðarins á árunum 2010–2012 þegar fjöldi fyrirtækja var heimsóttur undir því átaki og víða kippt málum í lag sem voru í ólestri. Það skilaði gríðarlegum árangri, skilaði ríkinu hagnaði, tvímælalaust. Aðilar vinnumarkaðarins tóku að vísu sinn kostnað á sig, mönnuðu sendinefndirnar sem heimsóttu fyrirtækin. Það var vel gert. Kannski eru þeir tilbúnir í það áfram. Samtök atvinnulífsins eiga víst eitthvað í handraðanum, ég hef grun um að þeir réðu við það. Ég veit ekki um ASÍ en sennilega eru þeir ekki heldur alveg á flæðiskeri staddir.

En hvað um það. Ríkið gæti vel réttlætt það að taka t.d. allan útlagðan kostnað við slíkar samræmdar aðgerðir að sér. Það gæti líka verið liður í þessu. Þá geta menn slegið margar flugur í einu höggi, tryggt að borgað sé samkvæmt kjarasamningum, að aðbúnaðurinn sé í lagi, Vinnueftirlitið gæti þess vegna verið með í hópnum, tryggt að skattskilin séu í lagi, tryggt að tekjurnar skili sér af umsvifunum o.s.frv. Það er ótrúlega margt að vinna í þessu ef menn taka almennilega á hlutunum.

Virðulegur forseti. Hér er stórmál á ferðinni sem sjálfsagt er að taka vel á móti og leggja vinnu í. Ég hef ekki fulla sannfæringu fyrir því að hér sé róið nógu vel fyrir hverja vík, að það sé nægur metnaður á ferðinni. Það hefur valdið mér talsverðri umhugsun, af hverju þetta er svona takmarkað að þessu leyti. Það er líka áherslan á að takast á við þetta gagnvart erlendum aðilum sem koma inn á íslenskan vinnumarkað. Þannig er t.d. alveg ljóst í umfjöllun á bls. 27 í greinargerð þar sem er vísað í 12. gr. tilskipunarinnar að það er á grundvelli þeirrar 12. gr. sem það er heimilt að kveða á um keðjuábyrgð samkvæmt hinni evrópsku tilskipun. Við erum ekki að finna upp hjólið, það er heimilt að láta keðjuábyrgð gilda í tilteknum atvinnugreinum. Þá væntanlega hafa löndin sem innleiða mikið svigrúm til að ákveða, miðað við aðstæður hjá sér, hverjar þær greinar eru. Svo kemur, með leyfi forseta:

„… og er í frumvarpi þessu kveðið á um slíka ábyrgð notendafyrirtækja í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð, sbr. 13. gr. frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að notendafyrirtæki geti borið ábyrgð á vangoldnum lágmarkslaunum starfsmanna þess erlenda fyrirtækis …“ — Þess erlenda fyrirtækis.

Ég var að leita að þessu fyrir mér því að ég vildi vera með það á hreinu. Er þetta aðeins í gildi þegar erlendir aðilar eru í verkunum? Er það þannig? Hvernig á að lesa þetta orðalag? Ég hef ekki alveg komist til botns í því, hef ekki haft tíma til að fara í botninn á því eða aðstöðu til að spyrja neinn, geri það þá hér og nú. Eigum við að skilja þessa umfjöllun í greinargerðinni þannig að keðjuábyrgð gildi ekki ef það er innlendur verktakahópur eða ef verksalinn sjálfur, móðurfyrirtækið, er innlent? (Gripið fram í.) Þá gildi ekki keðjuábyrgð?

Þetta þarf að hafa á hreinu. Og mér finnst þetta vera of takmarkandi.

Þá að því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi og er mjög gild spurning: Ef við innleiðum þetta svona takmarkandi, hefur það áhrif á aðila sem vilja setja sér metnaðarfyllri og víðtækari reglur? T.d. allsherjarkeðjuábyrgð, óháð því hvort aðilar eru innlendir eða erlendir, óháð því hvort það er mannvirkjagerð eða þjónustukaup, hvort sem það er Reykjavíkurborg, Landsvirkjun eða einhver annar? Hæstv. ráðherra segir nei. Vonandi er það. Í fyrstu umferð lítur það auðvitað þannig út að verkkaupinn hljóti að mega setja sér strangari reglur, því að það er hann sem er að kaupa verkið, hann sem borgar. Hann hljóti þá að mega setja sínar reglur. En bíðið nú við, er víst að það verði svo í framtíðinni? Hvað gerist ef erlendur aðili hjólar í þann aðila og segir: Þetta er samkeppnishindrun? Þú ert með strangari reglur hér um þetta en landið hefur innleitt í sinn rétt og þar með stenst það ekki. Gæti staðan ekki verið á þann veginn? Væri ekki hugsanlegt að slíkt félli? Það skyldi nú ekki vera. Ég held að þarna sé líka á ferðinni hlutur sem við þurfum að kanna mjög vel og vera alveg örugg um að þetta komi ekki í veg fyrir að aðrir geti haft sínar reglur um keðjuábyrgð eða aðra slíka hluti víðtækari, jafnvel þótt ekki yrði gengið lengra í löggjöfinni í fyrstu umferð.

Ég tók eftir því sem hæstv. ráðherra sagði um það, að menn ætluðu að fylgjast vel með því hvort þörfin sprytti upp á fleiri sviðum og þá yrði flutt nýtt frumvarp sem myndi væntanlega útvíkka gildissvið ákvæðanna. Það hringir ákveðnum bjöllum hjá manni, ekki síst vegna þess að sú grein sem vex hraðast í landinu um þessar mundir og ræður til sín langmest af erlendu starfsfólki er ferðaþjónustan og þar sjáum við dæmin um óeðlilega samkeppni og félagsleg undirboð, dæmi um rútufyrirtæki voru nefnd hér, dæmi um flugfreyjur sem kalla verkfall yfir viðkomandi fyrirtæki í haust, ef ég heyrði rétt í fréttum í kvöld. Þetta er allt saman í þjónustu, innan ferðageirans. Þar hefur maður því miður upplýsingar um að svört starfsemi sé vaxandi og ástandið víða að verða býsna alvarlegt.

Það var þannig í gamla daga að menn töldu að ekki þyrfti að þrátta um að það væru iðnaðarmenn og byggingargeirinn þar sem svört starfsemi væri algengust og mest undanskotin. En hvað sýndi þessi könnun á sínum tíma og vinnustaðaheimsóknirnar á árunum 2010–2012? Það sýndi að byggingargeirinn og iðnaðargeirinn höfðu öðlast sterka keppinauta á þessu sviði.