146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég kem hér aðallega til að fletta upp í henni sem sérfræðingi á sviði innleiðinga Evrópureglugerða innan EES-ríkjanna. Eins og nefnt hefur verið liggur fyrir þinginu tillaga til þingsályktunar um starfshóp um keðjuábyrgð sem mælt var fyrir fyrir nokkrum vikum. Þar eru komnar inn umsagnir um málið, sem er nátengt þessu frumvarpi. Í umsögn Samiðnar kemur fram að frá árinu 2011 hafi Samiðn lagt mikla áherslu á lögfestingu keðjuábyrgðar. Í því sambandi hafi mest verið horft til Noregs sem gengið hefur lengst. Þar sé komin mest reynsla á framkvæmd keðjuábyrgðar.

Í 13. gr. þess frumvarps sem við ræðum hér er, eins og fram hefur komið, talað um að keðjuábyrgðin nái aðeins utan um starfsemi á ákveðnu sviði atvinnulífsins á meðan 12. gr. tilskipunarinnar, sem er verið að innleiða, er ekki með slík mörk. Aðildarríki hafa samkvæmt tilskipuninni nokkuð frjálsar hendur með þessa innleiðingu, að mér sýnist. Þess vegna langar mig að heyra á hv. þingmanni hvernig dæmi Noregs sé í samanburði við það frumvarp sem hér liggur fyrir. Er hægt að hnika málum aðeins lengra en raunin er, taka til fleiri atvinnugeira eða hvað það er? Teldist það nokkur hindrun ef við gefum okkur að Noregur sé með sambærilegar lausnir?