146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rak augun í margt í þessu frumvarpi og þakka ræðu hv. þingmanns. Í frumvarpinu er talað um að núverandi hlutfall erlendra starfsmanna hér á landi sé 10,3% af vinnumarkaði og hafi aldrei verið meira. Innan fjárlaganefndar hefur verið talað um að það sé jákvætt merki að vinnuaflið sé flæðandi og að það minnki að einhverju leyti spennuna á markaðnum. Ég hef áhyggjur af því hversu stór hluti þetta er af hagsveiflunni, af því að við höfum ákveðnar skatttekjur af rosalega mörgum erlendum starfsmönnum. Ef þeir fara úr hagkerfinu, ef fer að þrengja að, bremsar það ekki alla hagsveifluna niður í ekki neitt? Þá erum við að hverfa frá þeirri fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem við erum að vinna eftir og við höfum komist að því að er rosalega viðkvæm gagnvart þeim hagtölum sem hún er miðuð við. Allt umfram það er náttúrlega alveg frábært, en ef við náum ekki þeim hagtölum sem áætlunin byggir á þá erum við í dálítið vondum málum.

Ég er að velta því fyrir mér hvaða áhrif þessi löggjöf hefur á þennan vinnumarkað, hvort viðkomandi fyrirtæki sjái sér ekki kleift (Forseti hringir.) að vinna hér lengur og fari þá bara. Að sjálfsögðu viljum við ekki að þau séu að undirbjóða eins og þau gera (Forseti hringir.) og við viljum ekki þannig skatttekjur. En það vantar, finnst mér, greiningar á því hvort þetta hafi einhver slík áhrif eða ekki.