146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það kom fram að hér eru 26 starfsmannaleigur og auðvitað er gífurleg þensla hér, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Úti á landsbyggðinni hefur flóðbylgju þenslunnar ekki borið að landi. Kannski væri ánægjulegt ef hún færi að jafnast út þessi þensla, þá væri kannski meira jafnvægi hér og ekki hætta á hagsveiflum eins og við erum hrædd við. Við treystum kannski ekki þessari fjármálaáætlun þar sem hún byggist á ákveðnum væntingum um áframhaldandi hagvöxt sem getur verið mismunandi góður eftir því á hverju hann byggist.

Launþegahreyfingin hefur allt frá 2011 verið að skoða þessi mál. Ég á von á því að hún eigi í fórum sínum ýmsar upplýsingar og greiningar á stöðunni. Ég held að við megum alls ekki vera kynnt þannig á vinnumarkaði, eða a.m.k. ekki á vinnumarkaði innan EES, að við séum þannig land að við látum okkur í léttu rúmi liggja hvernig kjarasamningum er framfylgt. Við viljum ekki þannig aðila inn í landið. Það þarf að sýna á þau spjöld strax, að þeir séu ekki æskilegir. Menn verða að vinna eftir þeim lögum og reglum sem fylgja íslenskum vinnumarkaði og þannig er það bara. Það er ekkert flóknara en það. Atvinnulífið verður að horfast í augu við það að við búum hér við lögbundna kjarasamninga sem aðilar vinnumarkaðarins hafa skrifað undir og þá skiptir uppruni þess sem á í hlut engu máli.