146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil ítreka að ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þessu flókna máli, innleiðingarmáli.

Mig langar aðeins til þess að byrja á því að rifja það upp hvernig við Íslendingar vöknuðum við vondan draum hér á Kárahnjúkaárunum þegar allt umhverfið var allt í einu gerbreytt. Í stað þess að ný virkjunarframkvæmd þýddi mikla vinnu í heimabyggð, mikil umsvif, hátt kaup og vertíðarblæ þar sem allir græddu, þá blasti allt önnur staðreynd við. Það voru komnar erlendar starfsmannaleigur sem ekki aðeins tóku vinnu frá heimamönnum eða Íslendingum, heldur undirbuðu allt sem hægt var að undirbjóða. Tryggingar, ég tala nú ekki um launin, réttur til veikinda og hlés frá vinnu, allt var þetta þverbrotið, hlutir og atriði sem verkalýðshreyfingin hafði barist fyrir jafnvel áratugum saman og oft orðið að fórna töluverðu til þess að ná því fram. Allt var þetta fyrir bí og lagt til hliðar, var marklaust þegar hingað voru fluttir í heilum flugförmum verkamenn frá Kína, frá Portúgal og frá Ítalíu, svo eitthvað sé nefnt. Gagnvart þessu verkafólki var engin virðing hvað varðaði aðbúnað, veikindarétt eða annað.

Við þekkjum kannski ekki enn þá andstyggilegustu mynd þessa nútímaþrælahalds þar sem, eins og upplýst hefur verið um meira að segja í Svíþjóð og Noregi, ég tala nú ekki um í öðrum Evrópulöndum, fluttir eru heilu hóparnir af fólki til þess að vinna einhæf störf í landbúnaði eða í verksmiðjum og það er allt tekið af þeim, meira að segja passinn. Í rauninni er „ídentítetið“ tekið af fólkinu, það er í rauninni ekki lengur til. Það er svo dapurlegt að þetta nútímaþrælahald er miklum mun víðtækara á alþjóðavísu en þrælahaldið var hér í eina tíð.

Þræll í dag er svo lítils virði. Þegar farið var í þrælastríðið í Bandaríkjunum voru þrælar mikils virði, þeir voru dýrir. Eigendurnir fóru vel með þá, pössuðu að drepa þá ekki með vinnu. Það er annað uppi í dag. Því miður eru mýmörg dæmi.

Við vöknuðum upp við vondan draum í Kárahnjúkaævintýrinu 2007 og sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. Brugðist var við, ekki aðeins með löggjöf heldur voru það kannski fyrst og fremst aðilar vinnumarkaðarins sem tóku sig saman. ASÍ og Samtök atvinnulífsins lögðu fram tillögur á árinu 2006, sem seinna voru svo staðfestar í lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja, ég man nú ekki hvað hæstv. ráðherra kallaði þennan hóp áðan. Við erum sem sagt með lög frá 2007, en þau hafa alls ekki haldið í við þróunina.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að við værum nokkrum skrefum á undan þróuninni og vísað til þess að við værum ekki orðin of sein að innleiða þessa tilskipun, eins og það sé einhver mælikvarði. Því miður erum við á eftir þróuninni. Það sýnir sig best í því að stærstu sveitarfélögin hér, eins og Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, og öflugustu fyrirtækin í landinu, eins og Landsvirkjun og Ríkiskaup, hafa tekið málin í eigin hendur, hafa ekki viljað bíða eftir löggjafanum, hvað þá eftir einhverri tilskipun frá Evrópska efnahagssvæðinu.

Það sem þessir aðilar hafa lagt upp með í sínum samningum og ákvörðunum er miklum mun víðtækara en það sem um ræðir í þessu frumvarpi, eins og hefur verið rætt. Ég get nefnt að fram kom á ársfundi Landsvirkjunar hér á dögunum að þar tekur keðjuábyrgðin til verksamninga, vörusamninga og samninga um kaup á þjónustu. Hér erum við að tala um keðjuábyrgð bara í byggingariðnaði og mannvirkjagerð, af því að svo segir í einhverjum tilskipunum frá Evrópu.

En hvað er keðjuábyrgð? Ég held að menn verði aðeins að átta sig á því að það er ekki bara að einhver hlaupi til og ábyrgist laun, það er ef þau eru vangoldin. Keðjuábyrgðin er í rauninni sú að aðalverktaki, sá sem gerir samninginn um sölu á vinnu, ber ábyrgð á því að samningar sem hann gerir við sína undirverktaka og undirverktakarnir við sína verktaka séu í fullu samræmi við lög í landinu og þá kjarasamninga sem um ræðir.

Það er ekki einboðið, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á hér áðan, að innleiðing þessarar tilskipunar getur verið túlkuð á þann hátt að reglur sem þeir aðilar sem ég nefndi og fleiri hafa sett sér og eru víðtækari en frumvarpið hér gerir ráð fyrir, verði ekki túlkaðar sem samkeppnishindrun og mönnum gert að draga í land með þær.

Mig langar til þess að koma aðeins að umhverfinu í kringum okkur áfram vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að við værum á undan þróuninni. Hv. þm. Dóra Tynes nefndi hér áðan að við þyrftum að fara varlega í sakirnar, við yrðum að gæta okkur á því að fara ekki lengra, stíga ekki stærri skref en gert væri ráð fyrir í Evrópuréttinum. Þá vil ég minna á að samningsrétturinn er enn þá frjáls. Það gilda enn frjálsir kjarasamningar í landinu. Aðilar vinnumarkaðarins, sérstaklega ASÍ og líka Samtök atvinnulífsins, hafa skorið upp herör gegn félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði og hafa lagt mikið fram, bæði til umræðunnar og á vettvangi þar sem slík undirboð eru í gangi.

Ég held sem sé að þetta þurfi ekki allt að koma með innleiðingum frá tilskipunum frá Evrópusambandinu. Við getum gert betur. Ég minni á að árið 2010 var innleidd í Noregi löggjöf sem felur í sér sameiginlega eða samfélagslega ábyrgð verktaka og undirverktaka, þannig að menn geta lagt fram kröfu um leiðréttingu ef undirboð eru í gangi. Á árinu 2014 var í Svíþjóð gert samkomulag aðila á vinnumarkaði um keðjuábyrgð. Þar er ekki lagasetning. Þetta samkomulag hefur í rauninni stöðu kjarasamnings. Það gildir að vísu aðeins enn sem komið er í byggingariðnaðinum sem greiðir í sjóð til þess að standa straum af launaleiðréttingum.

Ég nefndi áðan að það gæti verið túlkað sem samkeppnishindrun ef menn ganga lengra en þessi tilskipun gerir. Ég vil nefna það að Landsvirkjun hefur þegar gert yfir 50 samninga við birgja og samstarfsaðila með ákvæðum um keðjuábyrgð. Enn og aftur vísa ég til þess sem fram kom á ársfundi fyrirtækisins.

Frú forseti. Mig langar til þess að fara aðeins inn á það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir spurði hér um fyrr í umræðunni, vegna þess að við erum ekki eyland í þeim skilningi að það sama gerist á íslenskum vinnumarkaði og annars staðar í heiminum. Við lesum í dag fréttir af Primera Air. Flugfreyjufélag Íslands samþykkti í dag vinnustöðvun hjá þessu félagi og hún á að taka gildi 15. september nk. Vinnustöðvunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, hverju einu og einasta sem greitt var í atkvæðagreiðslunni. Það er ekkert sérstakt við að boðað sé verkfall á Íslandi, er það? Nei, en í þessu tilfelli er það sérstakt vegna þess að þarna er flugfreyjufélagið með stuðningi ASÍ og í samvinnu við ASÍ að vinna gegn félagslegu undirboði á þessum markaði vegna þess að flugfreyjurnar sem starfa í flugvélum þessa fyrirtækis, sem er með starfsstöð hér á Íslandi, eru á vegum lettneskrar starfsmannaleigu og eru með miklu lægra kaup. Það er undir lágmarkslaunum á Íslandi, ég tala nú ekki um réttindi eins og veikindarétt eða annað sem kjarasamningar tryggja. Þetta er nákvæmlega það sama og er að gerast með rúturnar sem við ræddum hér fyrr í dag. Það þarf virkilega að bregðast við.

Mér er til efs að það frumvarp sem hér er til umræðu dugi í því sambandi. Ég hvet þess vegna eindregið til þess að tillaga þingflokks Vinstri grænna, sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir er 1. flutningsmaður fyrir, verði samþykkt. Hún er komin vel áleiðis í vinnu í nefndinni, komnar eru fram umsagnir og annað. Það er nauðsynlegt að bregðast við með þeim hætti sem þar er lagt til, að skipaður verði starfshópur sem fái það hlutverk að semja lagafrumvarp um keðjuábyrgð, þá á öllum sviðum vinnumarkaðarins. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að það megi ekki vegna einhverra EES-ákvæða er ég nokkuð viss um að aðilar vinnumarkaðarins muni, á sama hátt og gerðist í Svíþjóð, vera viljugir til þess að taka höndum saman og semja, gera samning um slíkt.

Það er miður að þetta frumvarp hefur verið kynnt sem frumvarp um keðjuábyrgð. Ég verð að segja að það vekur að einhverju leyti falskar væntingar. Við höfum rætt það hér í kvöld hversu takmarkað frumvarpið er í rauninni. Það snýr bara að erlendum starfsmönnum, sem sagt einyrkjum á eigin vegum, mönnum á vegum starfsmannaleigu og þeirra sem eru starfsmenn erlendra fyrirtækja hér á landi.

Því miður hafa menn sannarlega sett kíkinn fyrir blinda augað þegar kemur að því að menn geti keypt ódýra þjónustu, eins og ég hef bent á og fleiri hér. Þannig eru það innlendar ferðaskrifstofur sem kaupa þjónustu af þessum útlendu rútufyrirtækjum á 50% lægra verði en gerist á íslenskum markaði að öðru leyti.

Á sama hátt er það staðreynd með Primera Air, eins og Flugfreyjufélag Íslands bendir á í tilkynningu í dag, að þar er fyrirtæki sem er með starfsstöð á Íslandi sem notfærir sér þetta ástand og semur við lettneska starfsmannaleigu um miklum mun lægra kaup. Þannig að við erum ekkert einstök í þessu hér.

Það þarf að koma böndum á þetta yfir allan vinnumarkaðinn. Þetta frumvarp er gott að sínu leyti, en það gengur ekki nógu langt.