146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:22]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá hef ég aðeins betri skýringar á hugmyndum hv. þingmanns. Hún var þá að tala um perlukafara. Ég sé kannski ekki að það sé beinlínis tengt þessari umræðu.

Það sem mig langar örlítið að koma að og það sem ég er að reyna að segja er að orðtök sem við tökum og þær samlíkingar sem við drögum upp hafa eilítið áhrif á þau viðbrögð sem við sýnum við tilteknum þjóðfélagsmeinum. Ef sú staða er raunveruleg að á Íslandi tíðkist í stórum stíl einhvers konar þrælahald sem er að einhverju leyti sambærilegt því sem þekktist þá þurfum við ekki betri lög um keðjuábyrgð, þá er eitthvað allt annað og meira sem við þurfum að gera. Þarna var fólk flutt nauðugt á milli landa í stórum stíl. Ef það er tilfellið, þá er það ekki endilega það að verktaki beri ábyrgð á undirverktaka sem er það mein sem við þurfum að berjast við, heldur eitthvað allt, allt annað.