146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:48]
Horfa

Dóra Sif Tynes (V) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þingmanns gefur tilefni til örfárra athugasemda. Í fyrsta lagi þykir mér rétt að rifja það upp með hv. þingmanni að nú erum við með í gildi lög um opinber innkaup sem, viti menn, eiga rætur sínar að rekja til EES-samningsins og hafa meira að segja nýverið verið uppfærð. Þau lög veita opinberum aðilum svigrúm til þess að setja sér innkaupastefnu. Það er partur af hinu opinbera regluverki að í slíkri innkaupastefnu mega opinberir aðilar, þar með talin sveitarfélög og opinber fyrirtæki, gera ríkari kröfur, bæði að því er varðar félagsleg málefni, jafnréttismál, umhverfismál og fleira. Ramminn í kringum það er skýr og ég sé ekki að þetta frumvarp ætti að hrófla nokkuð við þeim ramma.

Það er annað sem mig langaði að vekja athygli hv. þingmanns á og jafnvel spyrja hann um og það varðar umræðu um réttindi erlendra starfsmanna til að setjast hér að og stunda vinnu. Eins og hefur komið fram í þessari umræðu vinnum við eftir hinu norræna vinnumarkaðsmódeli sem byggir á kjarasamningum. Mér fannst ekki alveg skýrt í ræðu hv. þingmanns hvort hann væri að hvetja til þess að við færum af þeirri leið og færum frekar yfir í, eins og tíðkast í sumum löndum, að lögfesta kjör og önnur réttindi sem nú er samið um í almennum kjarasamningum. Það væri gaman að heyra í hv. þingmanni um það.

Þá langar mig aðeins að vekja athygli á því, af því að hefur verið komið inn á svokallaða nauðungarflutninga, eða það sem við köllum í dag oftast mansal, að þessu frumvarpi er einmitt ætlað (Forseti hringir.) að auka upplýsingaskyldu erlendra fyrirtækja til að geta unnið á meinsemd eins og mansali.